Fara í efni

EKKI SELJA!

Undirrituð hefur sem íslenskur Falun Gong iðkandi fylgst náið með stöðu mannréttindamála í Kína undanfarinn áratug.
Í tengslum við umsókn Huang Nobu til innanríkisráðuneytisins um undanþágu frá lögum fyrir að kaupa 0,3% af Íslandi vil ég  deila með ráðherra og starfsfólki innanríkisráðuneitis upplýsingum um birtingarmyndir þess hvernig kínversk stjórnvöld svipta þegna sína frelsi, eignum og lífi án tillits til grundvallar mannréttinda.
Sú staðreynd gefur okkur meðal annars gildar forsendur til að ætla að eignir kínverskra þegna á Íslandi séu eða geti orðið á hvaða tímapunkti sem er eignir kínverskra stjórnvalda.  Að selja umtalsverðan hluta af landi okkar til kínversks aðila snýst því ekki eingöngu um kaupandann og hvað hann hefur í hyggju á landsvæðinu, heldur hvort okkur Íslendingum þyki eðlilegt að erlent stjórnvald, með svörtustu skrá  sögunnar yfir hrottaleg mannréttindabrot geti mögulega eignast stórbrotin ítök hér á landi.
Í því sambandi er vert að benda á að Jiang Zemin, hefur verið dæmdur fyrir glæpi gegn mannkyni, pyntingar og þjóðarmorð á Falun Gong iðkendum í Kína af tveimur dómsstólum með alþjóðlega lögsögu á árinu 2009, annars vegar í Argentínu og hins vegar á Spáni, í báðum tilfellum í framhaldi af margra ára rannsókn á alvarlegum ásökunum á hendur honum og fleiri kínverskum ráðamönnum:

http://www.reuters.com/article/2009/12/23/us-argentina-china-falungong-idUSTRE5BM02B20091223
http://www.theepochtimes.com/n2/world/spain-court-falun-gong-genocide-jiang-zemin-25211.html

Vaxandi umsvif Kína sem markaðs- og viðskiptaveldis á heimsvísu hafa síður en svo dregið úr mannréttindabrotum heima við eins og margir bundu vonir við, - en loforð um bót og betrun í mannréttindamálum var til að mynda eitt helsta skilyrði Ólympíunefndarinnar fyrir því að leikarnir yrðu haldnir þar í landi á árinu 2008.
Þvert á öll loforð jukust brot yfirvalda gegn þegnum sínum í tengslum við leikana og voru gefnar út sérstakar tilskipanir þar að lútandi þar á meðal um hertar aðgerðir gegn Falun Gong iðkendum í landinu.

(Sjá eftirfarandi frétt.. ):

,,ÓL áfall fyrir tjáningarfrelsi
Ólympíuleikarnir í Peking eru meirháttar áfall fyrir tjáningarfrelsið í Kína. Áhrif leikanna á tjáningafrelsið eru hörmuleg, segir í nýrri skýrlsu mannréttinda-hreyfingarinnar Fréttamenn án landamæra, sem birt er degi fyrir lok leikanna.
Skýrsluhöfundar segja að engin ástæða sé til bjartsýni um að Ólympíuleikarnir í Peking muni bæta ástand mannréttindamála í Kína. Talsmaður samtakanna Fréttamenn án landamæra sem hefur aðsetur í París segir þvert á móti hafi Ólympíuleikarnir í Peking verið atburður sem hafi leitt til þess að yfir 100 fréttamenn, blaðamenn, bloggarar og stjórnarandstæðingar hafa þurft að sæta ofsóknum af ýmsu tagi.
Meðal annars hafi þeir þurft að sæta handtökum, dómum , eftirliti og aðkasti. Fjörutíu og sjö baráttumenn fyrir frjálsu Tíbet hafi verið handteknir og að minnsta kosti 50 talsmenn mannréttinda hafi, verið settir í stofufangelsi, eða verið þvingaðir til þess að fara í útlegð frá Peking meðan á leikunum hefur staðið. Auk þess hafa 15 kínverskir borgarar verið handteknir fyrir að sækja um formlegt leyfi til þess að mótmæla. Samtökin segja ennfremur að auk þeirra 100 Kínverja sem hafi sætt harðræði hafi 22 erlendir fréttamenn verið handtekir eða á annan hátt verið hindraðir í starfi meðan á leikunum hefur staðið. Tveir bandaríkjamenn sitji í fangelsi fyrir að hafa fylgst með mótmælum gegn hernámi Kínverja í Tíbet. Þeir voru dæmdir í tíu daga fangelsi. Þrjátíu og einn fréttamaður, bloggari og andófsmaður hafi verið handteknir eða dæmdir. Engum samviskufanga hafi verið sleppt úr fangelsi frá því Olypíuleikarnir hófust. Hins vegar hafi verið þjarmað að þeim í fangelsunum og heilsu margra þeirra hafi hrakað .
Samtökin Fréttamenn án landamæra segja í yfirlýsingu í dag að Ólympíuleikarnir í Peking verði í minnum hafðir fyrir brot gegn tjáningarfrelsi manna og fyrir þá kúgun sem beitt hafi verið til að þagga niður í þeim sem kínverskum stjórnvöldum sé ekki að skapi. Samtökin hvetja til þess að næst þegar valin verði borg til að vera gestgjafi Ólympíuleika þá eigi virðing fyrir mannréttindum að vera ein af megin forsendum fyrir valinu."
Hvað varðar eignarrétt kínverskra þegna þá hafa þeir sem fóru fram á tilhlýðilegar bætur fyrir húseignir sem þau voru svipt þegar heilu hverfin í Peking voru jöfnuð við jörðu vegna byggingar ólympíumannvirkja tekin föstum tökum og forsprakki þess hóps handtekinn og síðar pyntaður og líklega myrtur í kínversku fangelsi.
Mikill fjöldi bænda þurfti sömuleiðis að sætta sig við uppskerubrest á árinu 2008 vegna einhliða ákvarðana stjórnvalda um að svipta þá vatnsuppsprettum sínum sem í staðinn átti að nýta til að mæta þörfum ólympíuþátttakenda. (Sjá frétt)
,Þúsundir án vatns í Kína
Breska blaðið Times segir að yfirvöld í Kína hafi lokað fyrir vatnsveitu til bænda í Heibei ríki skammt frá Peking, til þess að tryggja nægilegt vatn til borgarinnar á meðan á Ólympíuleikunum stendur. Uppskera margra bænda á svæðinu er nú ónýt vegna þurrka, segir blaðið og hefur það kostað marga aleiguna. Hafin var mikil uppbygging á vatnsveitukerfum sem áttu að veita vatni frá Heibei til Peking og vatni safnað í uppistöðulón.
Gestir Ólympíuleikanna urðu þó færri en reiknað var með og vatnið því aldrei notað og veitukerfið stendur hálfklárað. Yfirvöld hafa þó ekki veitt vatninu aftur á akrana og standa þeir að sögn blaðamanns Times skraufþurri
Um 30 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín á svæðinu vegna þurrkanna eftir að hafa misst lífsviðurværi sitt."
Aðferðarfræði kínverskra stjórnvalda í heimshlutum eins og Afríku, þar sem landsvæði hafa verið keypt og heilar borgir byggðar, virðist sömuleiðis lúta þeim formerkjum að allt efni, vinnuaframlag og neysluvörur eru fluttar inn frá Kína. Innlendir afríkubúar njóta því ekki hagsmuna af stórfelldri uppbyggingu í þeirra eigin landi.
Stigvaxandi viðskipti vestrænna lýðræðisríkja við Kína hafa því miður ekki haft þau áhrif sem margir vonuðust til af stjórnvöldum fjölmennasta ríkis heims.
Í ljósi þeirra alvarlegu staðreynda sem hér um ræðir, - skorar undirrituð á hæstvirtan innanríkisráðherra að taka mið af hæstu gildum og hugsjónum lýðræðis og manngildis við ákvarðanatöku um jarðarkaup Huang Nobu.
Með hlýrri kveðju.
Virðingarfyllst,
Þórdís Hauksdóttir