Fara í efni

EIGUM NÓG AF HEIMABÖKUÐUM ÞJÓFUM

Góði Ögmundur...
Ég er sammála þér og Sunnu Söru, hvað komu Roman Abromovits og hans líka til landsins snertir. Mér skilst að Roman Abromovits sé góðvinur Ólafs Ragnars og konu hans. Mig minnir að það hafi verið tekin mynd af þeim öllum saman hér um árið, og gott ef hún og Roman eru ekki skyld.  Kemur hann með Bónus flugvél, eða í sinni eigin? Ögmundur, við eigum nóg af okkar eigin heimabökuðu þjófum sem eru ekkert betri miðað við fólksfjölda, og eftir er að afgreiða.
Bestu kveðjur,
Úlfljótur

Sæll Úlfljótur og þakka þér bréfið. Ég held að það sé misskilingur hjá þér að nokkur skyldleiki sé á milli forsetafrúarinnar og Abromovits. Hitt virðist vera rétt að ÓRG og RA sé vel til vina. Það eru líka orð að sönnu að Roman Abromovits er sakaður um að hafa sölsað undir sig almannaeigur í heimalandi sínu. Það kallast þjófnaður á venjulegri íslensku. Það er líka rétt hjá þér Úlfljótur að á Íslandi höfum við orðið vitni að ámóta þjófnaði. Einhvern tímann hefði það hljómað sem stóryrði og örgustu öfgar að tala á þennan veg en það hrikalega er að við erum að tala um staðreyndir. Þetta er einfaldlega raunsönn lýsing á veruleikanum. Veruleikinn er öfgafullur, ekki lýsing á honum!
Með kveðju,
Ögmundur