Fara í efni

EIGA KJARASAMNINGAR EKKI FRAMTÍÐ FYRIR SÉR?

Blessaður Ögmundur.
Þú bendir á niðurstöður úr könnun SFR um launamun á milli okkar sem störfum hjá opinberum stofnunum og hins vegar þeim sem vinna á almenna markaðnum og virðist þeim flest í vil. Nú get ég vitnað um það að mitt félag, SFR, hefur staðið sig vel, gert samninga og reynt allt til að hífa okkur félagsmennina upp launalega séð. Hitt vekur athygli hversu góð staða félagsmanna VR er því að því er mér skilst gerir það félag enga kjarasamninga og er orðið eins hver önnur háeffuð skemmtibúlla. Er þetta kannski það sem koma skal hjá opinberum starfsmönnum? Mun skemmtifélagsformið breyta okkar lífsstandard?
Þórður Þórhallsson Laugdal

Sæll Þórður.
Þakka þér kærlega bréfið. Þankar þínir hljóta að verða öllum umhugsunarefni. VR nýtur - að mínu mati - góðs af þenslu og eftirspurn eftir vinnuafli. Það veldur launaskriði sem opnberir starfsmenn njóta ekki góðs af í eins ríkum mæli og almenni markaðurinn gerir því þeir eru háðir niðurnjörfuðu taxtalaunakerfi. Það kerfi tryggir hins vegar réttindin þegar á reynir! Þess vegna köstum við því ekki fyrir róða. Og tengt því er allt réttindakerfi opinberra starfsmanna.  Þetta þýðir það hins vegar að stórhækka þarf launin í opinbera geiranum - það verður að gerast ef ekki á að horfa þar til landauðnar!
Kv.
Ögmundur