Fara í efni

EÐLISLÆG PERSÓNURÖSKUN?

Sér grefur gröf þótt grafi. Afstaða öfgahópsins innan VG er síður en svo til að standa vörð um hagsmuni fátæks fólks á Íslandi. Það fer lítið fyrir efnislegri umræðu hjá þessu fólki og andstaða þess við menn og málefni virðist fremur eiga rætur í eðlislægri persónuröskun og athyglissýki frekar en trú á að það sé að vinna fátækum gott. Ef félagshyggjufólk leyfir sér að gagnrýna þennan hóp er því svarað með orðum eins og "síðsovésk viðhorf". Er það efnisleg umræða? Þessi hópur hefur haldið ríkisstjórninni í gíslingu og haldið aftur af efnahagslegum úrbótum og þar með dregið verulega úr þjónustu við fátækt fólk. Ég nefni afstöðu þess til Icesave málsins, ESB, sem það þó samdi um í stjórnarsamningunum, og síðast en ekki síst andstöðu þess til allra virkjana hversu umhverfisvænar sem þær eru. Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar hafa margoft skjallað og hrósað höfundi þessarar síðu, enda er hann verðmætasti stuðningsmaður þeirra.
Pétur

Sæll og þakka þér bréfið. Þú hefur nokkrum sinnum gefið þig út fyrir að vera merkisberi málefnlegrar umræðu en talar á sama tíma um andstæðinga þína sem geðraskaða og gerir þeim upp skoðanir og hvatir. Kannski er það þess vegna sem aðferðafræðin austantjalds kemur upp í hugann.
Forsetanum velur þú hrakyrði fyrir að opna á þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni sem tugþúsundir óska eftir að greiða atkvæði um í beinni kosningu. Það hefur margoft komið fram hjá þér, bæði hér á síðunni og annars staðar, að þjóðaratkvæði eigi að vera takmarkað því hætta sé á því að þjóðin fari sér að voða, eyðileggi jafnvel  velferðarkerfið. Þetta þykir mér vera forræðishyggjuhugsun og hef fært fyrir því rök.
Allt þetta er þess virði að ræða og hef ég og aðrir lesendur hér á síðunni - þar á meðal aðilar sem vísað hafa í "síðsovésk viðhorf", gert það í pistlum og greinum. Sú umræða hefur í öllum höfuðdráttum verið mjög málefnaleg.
 Icesave málið skilur greinilega aldrei við huga þinn. Ertu að segja að ég og annað fólk sem þú telur haldið "eðlislægri persónuröskun" hafi ekki rætt um það mál málefnalega og með efnisrökum? Eða um ESB? Hvaða efnahagslegu úrbætur ertu að tala um, sem ég og aðrir með svipaðar skoðanir og ég, standi gegn?
Síðan er það meintur stuðningur minn við stjórnarandstöðuna, þá er það nú svolítið skondið að dylgja með þessum hætti um mann sem alla tíð hefur verið fylgjandi núverandi stjórnarmynstri og staðið gegn stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn þegar slíkt hefur komið til álita. Gaman væri ef þú segðir okkur frá öllu því sem þú hefur hugsað í þeim efnum í gegnum tíðina.
Kv. Ögmundur
https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/um-abyrgd-islendinga-og-ofgahop-vg