Fara í efni

DANSKIR EÐA ÍSLENSKIR ARKITEKTAR?

Sæll Ögmundur.
Í tilefni af bloggi Hilmars Þórs á eyjunni.is, "Arkitektúr, skipulag og staðarprýði", sem 5.11.2010 hefur að geyma pistilinn "Danir teikna fangelsi á Hólmsheiði" langar mig til að forvitnast hjá þér, sem Dómsmálaráðherra hvort ykkur sé fúlasta alvara með þetta verklag í þínu ráðuneyti? Í ljósi ömurlegs ástands hjá okkur íslenskum arkitektum, sem lepjum nú dauðann úr skel, vona ég að þú vindir sem bráðlegast ofan af þessu danska rugli. En sé ykkur alvara með það, að láta danska arkitekta teikna eitt stykki 3.600 fm. djeilhás, svo sem fram kemur í pistli Hilmars, þá sýnist mér það einsýnt að hreinlegast sé þá að ganga alla leið og fá hingað Margrethe Thorhilde sem drottningu og reyndar stjórnsýslu alla og allar opinberar stofnanir með mönnum og músum danskar, í stíl Trampe greifa og kompagni. Þá gætum við báðir lapið dauðann úr skel saman Ögmundur ... det ville saftsusme blive morsomt? Du maa huske, saa snakker vi bare dansk. Mér finnst alltaf best að menn sýni hreinskiptni og sýni hvernig ergo er nátengt sum. Svei mér þá. Fandme ogsaa.
Pétur Örn Björnsson

Sæll og fyrirgefðu töfina á að birta þetta bréf þitt sem mér barst 5. nóvember. Ég vildi einfaldlega ganga úr skugga um hvenig þessu máli væri varið  áður en ég svaraði. Staðreyndin er sú að fyrir nokkru síðan var dönskum ráðgjöfum falið að gera skyssu og annast útboðsgögn fyrir nýtt fangelsi. Þessir aðilar voru fengnir til þess verks vegna reynslu á þessu sviði en þeir  munu áður hafa verið til ráðgjafar um framkvæmdir á Litla Hrauni. Útboðið er sem sagt eftir og að sjálfsögðu standa vonir til þess að íslenskir arkitektar annist verkið. það þykir mér vera stórmál að verði og er ég þér algerlega sammála um það.
Kv.,
Ögmundur