Fara í efni

BÚINN AÐ AFTURKALLA RAFRÆNU SKILRÍKIN SÍN

Rafræn skilríki í farsímann geta dregið verulega úr öryggi þínu! Núna er kominn þrýstingur á almenning að taka upp rafræn skilríki, t.d. til að "klára leiðréttinguna". Til þess er boðið upp á að fá rafræn skilríki sett í farsímann hjá fólki. Þessi rafrænu skilríki er svo hægt að nota til að skrá sig inn á vefi hjá alls kyns opinberum og einka-aðilum. Þetta er slæm hygmynd út frá örygginu. Með því að nota rafræn skilríki í farsíma er verið að setja öll eggin í sömu körfuna. Þessari körfu er síðan læst með svakalega flottum lás sem okkur er sagt að sé óbrjótanlegur, við þurfum bara að skaffa körfuna. Við tökum líka flest þessa körfu með okkur hvert sem við förum. Stundum skiljum við hana eftir einhversstaðar, við lánum hana, týnum henni og svo framvegis. Við raunar keyptum okkur þessa körfu til að hafa af henni gagn og gaman. Við getum leikið okkur að henni, lánað börnunum hana til að leika sér að. Eins gott að karfan passi vel upp á öll þessi egg... Karfan er farsíminn okkar, tæki sem engan vegin er hannað eða notað sem öruggt tæki. Þegar við kaupum okkur síma þá er tilgangurinn ekki að eiga eitthvað vottað öryggistæki og nota það þannig. Við kaupum síma til að hringja úr og svara símtölum. Til að taka myndir og hanga á facebook í. Til að setja inn allskonar forrit með misalvarlegan tilgang. Til að leyfa börnunum okkar að leika sér í. Eftir að við setjum rafræn skilríki í farsímann þá erum við því miður búin að opna okkur fyrir ákveðinni öryggishættu. Ef einhver kemst í símann hjá okkur getur hann átt við hann þannig að hann sjái PIN númerið sem notað er. Ef hann kemst svo aftur í símann þá getur hann notað rafrænu skilríkin nákvæmlega eins og við. Þá getur hann skráð sig inn í heimabankann þinn, skoðað sjúkrasöguna þína og skattframtalið, kosið fyrir þig í íbúakosningum... skráð sig inn á allar síður sem taka við þessum rafrænum skilríkjum. Sem þú. Þessi einhver þarf ekki að vera ofursnjall hakkari. Það er til hugbúnaður, t.d. mspy hugbúnaðurinn (www.mspy.com) sem leyfir hverjum sem er að gera þetta. Hugbúnaðurinn er t.d. ætlaður fyrir foreldra sem vilja njósna sérstaklega vel um barnið/unglinginn. Bilun? Já en þetta er hægt. Raunar njósnar þessi hugbúnaður um þig álíka vel og NSA getur gert. Ég prófaði þetta sjálfur, setti þetta upp og eitt af því sem njósnahugbúnaðurinn fann var einmitt PIN númerið á rafrænu skilríkjunum! Af hverju þarf maður að setja öll eggin í sömu körfuna? Er ekki betra að sleppa þessu bara? Ég er búinn að afturkalla mín rafrænu skilríki.
Friðjón Guðjohnsen