Fara í efni

BLÖSKRAR SKRIF ÞÍN

Sæll Ögmundur.
Mér var bent á grein sem þú skrifar hér þann 21 jan s.l. Mér blöskrar við að lesa þessi skrif þín. Auðvitað á að sækja fólk til saka sem brýtur af sér, burt séð frá "ástandinu" í þjóðfélaginu. Það var ráðist á fólk sem var að verja þig og samstarfsmenn þína á Alþingi. Mér þykir þú sýna þessu fólki vanvirðingu fyrir sín störf. Ef þessir ofbeldismenn kæmust upp með að vera ákærðir þá er þar með verið að gefa það út að það megi ráðast á öryggisverði, lögreglu og aðra þá sem standa vörð um þingið. Ég er sammála því að það þurfi að sækja þá menn til saka sem komu landinu í það hörmulega ástand sem það er í í dag. Það mál er hins vegar mun stærra í sniðum og eðlilega tekur lengri tíma að ákæra menn í þeim málum. Ögmundur, ekki verja ofbeldismenn.
Agnar

Ég ver ekki ofbeldi. Ég er einfaldlega að benda á kringumstæður og hvað best sé til þess fallið að draga úr ofbeldi, ekki auka það. Þá vek ég athygli á að þeir sem orðið hafa fyrir skaða hafa alltaf haft minn stuðning við að fá hann bættan. Það er útúrsnúningur að halda því fram að ég sé að vanvirða löggæslumenn. Það hef ég ekki gert. Ég tel að þeir hafi sýnt mikið hugrekki og æðruleysi við gríðarlega erfiðar aðstæður og fyrir það eiga þeir mína aðdáun og stuðning. Þetta hef ég margoft sagt. Ég bið um að ekki sé snúið út úr orðum mínum.
Kv. Ögmundur