Fara í efni

BIRKIR JÓN, FRAMSÓKNARPÚSLINN OG ÞJÓÐARPÚLSINN

Sæll Ögmundur.
Birkir Jón Jónsson þingmaður Framsóknarflokksins framkvæmdi afar vandaða úttekt á Vinstrihreyfingunni grænu framboði og birtist hún í Mbl. 7. febrúar sl. Niðurstaðan um VG var afdráttarlaus og er vel við hæfi að vitna hér orðrétt í þingmanninn: “Afturhaldssamur og öfgafullur stjórnmálaflokkur sem er á móti skattalækkunum, atvinnuuppbyggingu og framförum í íslensku efnahagslífi á ekki erindi í íslensk stjórnmál.” Svo mörg voru þau orð Birkis Jóns og rök hans fyrir þessari niðurstöðu voru einkum af tvennum toga. Annars vegar hefðu vinstri grænir “verið á móti markaðsvæðingu ríkisfyrirtækja, sem hafa skilað þjóðarbúinu gríðarlegum fjármunum á undanförnum árum”, að hans sögn, hins vegar og jafnframt hefðu þeir svo “verið á móti uppbyggingu orkufreks iðnaðar.”

Að kvöldi sama dags og hin athyglisverða rannsóknarniðurstaða þingmannsins birtist vildi svo til að fréttastofa Ríkissjónvarpsins flutti fregnir af Þjóðarpúlsi Gallups um fylgi stjórnmálaflokkanna. Merkilega lítill samhljómur var með þeim púlsi og hinum kraftmikla framsóknarpúlsi sem slegið hafði af miklum þunga fyrr um daginn. Nægir í því sambandi að líta til Norðausturkjördæmis, kjördæmis Birkis Jóns Jónssonar og raunar einnig áldrottningarinnar, hinnar virkjunarglöðu Valgerðar Sverrisdóttur. Ef marka má niðurstöðurnar virðist amk. allnokkur sjónarmunur á þjóðarpúlsi Gallups annars vegar og svo vandaðri úttekt framsóknar – fræðimannsins Birkis Jóns hins vegar. Samkvæmt könnuninni hefur fylgi Framsóknarflokksins hrapað úr 33% frá síðustu þingkosningum og niður í 15%. Öðru máli gegnir um Vinstrihreyfinguna grænt framboð sem fékk 14% fylgi í síðustu kosningum. Þjóðarpúlsinn sýnir nú fylgi við hana upp á 25%. Og hvernig má það vera, Ögmundur, að fjórðungur kjósenda í kjördæmi Birkis Jóns skuli nú telja sig eiga samleið með flokki sem að hans sögn á ekkert “erindi í íslensk stjórnmál”? Getur verið að nálgun þingmannsins á viðfangsefni sitt sé að einhverju leyti ekki eins og best verður á kosið?
Kveðja,
Þjóðólfur

Þakka þér bréfið Þjóðólfur. Nálgun þingmannsins er dæmigerð um stjórnmálamenn, sem rýna í þjóðfélagið með bjálka í báðum augum.  Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra. En þá verðum við að muna að þjóðfélagsrýni forystumanna Framsóknarflokksins er ekki hugsuð sem framlag til félagsvísinda heldur fyrst og fremst til að stappa stálinu í deyjandi stjórnmálaflokk. Auðvitað er þetta dapurlegt hlutskipti fyrir stjórnmálahreyfingu, sem á sínum tíma var kraftmikið uppbyggingarafl í íslensku samfélagi. Hreyfingin að baki Framsóknar er að færa sig á aðrar slóðir en eftir stendur vesalings Framsóknarflokkurinn úr tengslum við allt og alla.
Kv.
Ögmundur