Fara í efni

Bankarnir og Íbúðalánasjóður

Sæll Ögmundur.
 Ég vil byrja á því að þakka þér og flokksfélögum fyrir frábært starf í þágu almennings hér á landi. Vangaveltur mínar snúast um viðskiptabankana okkar sem voru seldir svo sorglega hér fyrir nokrum misserum. Nú hafa vinnubrögð þeirra og fégræðgi endanlega gengið fram af mér þegar þeir eru að kvarta undan starfsemi Íbúðalánasjóðs, sem er einn af hornsteinum þess velferðaríkis sem Ísland á að vera. Hvað finnst þér um að ríkið setji á stofn viðskiptabanka og geti þá um leið stýrt markaðnum með aðeins öðrum hætti en Seðlabankinn? Það er að mínu mati mjög óeðlilegt hversu mikinn hagnað þessir bankar eru að ná,og er hagnaðurinn á kostnað okkar, hinum almenna borgara. Skerum fleiri sneiðar af kökunni, það er nóg til fyrir alla!
Baráttukveðja,
Halldór

Heill og sæll.
Þakka þér bréfið. Hjartanlega er ég sammála þér varðandi bankana og Íbúðalánasjóð. Við höfum alltaf verið á því máli að almenningur ætti að eiga öflugan banka sem raunverulega kjölfestu í fjármálalífinu. Þess vegna vildum við ekki selja (les:gefa) Búnaðarbanka og Landsbanka. En hvers vegna ekki setja á fót slíkan banka að nýju? Góð spurning.
Kveðja,
Ögmundur