Fara í efni

BANKARNIR HEIMTA SITT

Ég eins og margir fleiri fjárfesti í bíl í ársbyrjun 2006. Til að létta mér lífið ákvað ég að taka lán á góðum kjörum, sem var ekkert mál. Reyndar var bíllinn bæði ódýr og sparneytinn, en samt taldi ég gott á þessum tíma að nýta mér vildarkjörin sem í boði voru. Lánið var kr. 750.000 til 5 ára og nam um helmingi af kaupverðinu. Vextir voru ekki nema 5,8%, en vísitala bættist við. Fyrsta afborgun var ekki nema kr. 16.397, þar af var afborgun af nafnverði kr. 12.295 og vextir kr. 3.622. Málið leit vel út.
Nú hafa vextirnir hækkað heldur betur og eru komnir í 10,35% og verðbætur af láninu sem er um helmingur af upphaflegri upphæð kr. 6.662,-. Vextir og verðbætur nema því nú samtals 26,5%. Nú er afborgun af nafnverði sú sama og í upphafi, vaxtagjöldin hafa hækkað upp í kr. 4.266,-  og afborgun verðbóta kr. 2.693,-. Afborgun alls er því kr. 19.449,-.
Afborgunin hefur því hækkað um rúmar þrjú þúsund krónur vegna hækkunar vaxta og verðbóta og höfðustóll lánsins lækkar ekki nema um rúmar átta þúsund krónur þrátt fyrir 12 þús. króna afborgun.
Í mínum augum er þetta ekkert annað en okur. Vextir og verðbætur af umræddu láni hafa hækkað úr 5,8% í 26,5% eða yfir 20%. Bankarnir eru farnir að heimta hærri vexti en vanskilavexti af láni sem alltaf hefur verið í skilum. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni þegar hinn skuldugi almenningur er krafinn um að herða sultarólarnar og spara, en bankarnir heimta sitt og meira til.
Er ekki kominn tími til að grípa í taumanna.
Valgeir Bjarnason