Fara í efni

BAKAÐIR EFTIR SÖMU UPPSKRIFT?

Sæll Ögmundur !

 

  Enn er ég að hugsa um hvert íslensk sjórnmál eru að stefna borið saman við nágrannalöndin. Nú eru það prófkjörin og þessi gegndarlausi peningaaustur í þeim sem maður horfir agndofa á. Er virkilega engin leið að fá settar hér einhverjar reglur um það að einstaklingar geti ekki keypt sér framgang í stjórnmálum og sæti á framboðslistum með peningum sem þeir fá með leynd frá einhverjum aðilum sem vilja styðja þá eða gera þá sér háða. Slæmt er nú að fjármál flokka eins og Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins séu leynimakk en ennþá verra að einstakir stjórnmálamenn skuli persónulega safna stórfé í sinni prívatbaráttu. Ef það er rétt að Björn Ingi hjá Framsókn hér í Reykjavík hafi eytt a.m.k. 10 milljónum í prófkjörið sitt þó hann segi bara 5, þá hljóta einhverjir að hafa látið hann fá miklar fúlgur. Nema auðvitað hann sé auðmaður sjálfur og þá kemur upp spurninginn hvort menn þurfi orðið að vera moldríkir til að komast að í stjórnmálum á Íslandi.

  Annað finnst mér vera áberandi og það er hvað margir af kandidötunum í hinum ýmsu prófkjörum eru líkar týpur. Þetta er sérstaklega áberandi með nýju karlana hjá Íhaldinu, Framsókn og Samfylkingunni. Þeir eru einhvernveginn allir bakaðir eftir sömu uppskriftinni, svona frekar uppskafningslegir framagosar og miklir auglýsingamenn. Ég á við þessa menn eins og Gísla Martein, Björn Inga, Dag B. Eggertsson og Stefán J. Hafstein. Þetta eru sjálfsagt allt ágætismenn en hvort þeir eru sú tegund sem mest vantar í stjórnmálin til að bæta þau efast ég meira um. Mér finnst pólitíkin hér vera að líkjast miklu meir og hraðar Ameríku en á hinum Norðurlöndunum. Gaman væri að vita hvort þú ert mér eitthvað sammála um þetta.

S Pálsson 

 

Þakka þér bréfið og fyrri skrif hér á síðunni. Ég er þér mjög sammála um ameríkaniseringuna á íslenskum stjórnmálum. Hún er vægast sagt varhugaverð. Innihaldsrík stjórnmál víkja fyrir stöðluðu skrumi og lýðræðið víkur fyrir peningum. Það eru slæm skipti.

Kveðja,
Ögmundur