ATLOTIN Á FLEKASKILUNUM
Sæll Ögmundur.
Tíðar hafa myndbirtingarnar verið hér á síðunni af kossaflensi forsætis- og utanríkisráðherra á Þingvöllum snemmsumars. Olli uppátæki þitt mér til skamms tíma heilabrotum sem mér finnst ekki viðeigandi að ræða frekar hér. Hitt þykist ég aftur á móti sjá að ekki var alveg á sandi reist sú kenning franska sálfræðingsins og heimspekingsins Jean Paul Gaultier að pólitík og erótík séu nátengd fyrirbæri - og það svo að hvorugt þrífist almennilega án hins.
Allt um það; mér finnst að þú hafir of oft að undanförnu vegið fremur harkalega að utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Sem bókaútgefanda tel ég bráðnauðsynlegt að þú skrifir nú svo sem eins og eina eró-pólitíska skáldsögu fyrir mig til útgáfu fyrir jólin – gefir Ingibjörgu hvíld og hleypir þess í stað nýju blóði í gamla bókmenntagrein sem á rætur að rekja til 18. aldar og hófst til vegs og virðingar með hinni ódauðlegu sögu Jonathans Swift um Gúlliver í Putalandi. Þú ert góður penni; þér er ekkert að vanbúnaði. Ég hef þegar gert skissu að bókarkápunni, svo sem sjá má, og bíð ég nú bara eftir sögunni.
Þjóðólfur