Fara í efni

ÁRÓÐURINN BEINIST AÐ FULLORÐNUM BÖRNUM !

Sæll Ögmundur.
Ágætur er pistillinn um Alcan og börnin hér á síðunni. Þú segir að áróðursátaki Alcan sé nú beint að börnum. En tekur þú ekki eftir að í þessu merki frá Alcan, sem þú birtir með pistlunum, eru foreldrarnir spurðir, “ÁTT ÞÚ LÍTINN SNILLING?”  Þannig að það er ekkert verið að bíða eftir að börnin vaxi til manns, það er verið að höfða til hreykinna foreldra.  Þannig að það þarf ekkert að bíða eftir uppskeru áróðursins þar til börnin verða stór,  hún hefur tilætluð áhrif á fullorðin börn!
Þetta eru lymskuleg vinnubrögð.
Ögmundur, hvenær á að upplýsa alþjóð um hvað hún fær fyrir raforkuna sína í álsvínaríinu; hvað hún þarf að greiða í vexti fyrir erlendu lánin sem tekin eru fyrir framkvæmdunum; hve margir Íslendingar verði ráðnir til að vinna við álvinnsluna og hve mikið þurfi af erlendu vinnuafli og hverskonar kaup verði greitt; hve mikla skatta álverin og yfirmenn þeirra muni greiða þjóðfélaginu í skatta og gjöld? Hvenær verður þetta allt upplýst, hvenær verður upplýst hver útkoman verður þegar upp verður staðið. Þá má ekki gleyma að draga frá kostnað af völdum mengunar og stórskemmda á landinu. Að síðustu má ekki gleyma að spyrja hvað hægt hefði verið að gera annað og nytsamlegra fyrir álfjárfestingar ríkisstjórnarinnar, á annað hundrað milljarða af lánsfé sem látnir hafa verið í virkjunina fyrir Alcóa svo nærtækasta dæmið sé nefnt.
Ég hef talað við fjölda manns og enginn veit svörin við spurningunum að ofan. Vesaldómur fjölmiðla og þings er með eindæmum og undirlægjuhátturinn ganvart erlendu auðvaldi virðist ekki eiga sér nein takmörk.  Hvar endar þetta?
H.