Fara í efni

SPURT OG SVARAÐ

Sæll Ögmundur,

Þú ferð mikinn með fullyrðingum um ólöglega netverslun með áfengi samhliða því sem þú mærir rekstur ÁTVR og þakkar honum ætlaðan árangur í lýðheilsumálum.
Hver er sá árangur og hvaða hlut að máli á ÁTVR þar? Ef svarið er að starfsemi ÁTVR hafi haft einhverju hlutverki að gegna, hvernig stendur þá á því að stofnunin rekur flestar áfengisverslanir miðað við íbúafjölda á norðurlöndunum og reynda líklega hvar sem er í heiminum? Hver er skoðun þín á keðjuábyrgð ÁTVR á hilluplásshöfum stofnunarinnar sem hafa stundað árum saman tollamisferli á kostnað samfélagsins?
https://vb.is/skodun/samfelagsleg-kedjuabyrg/
Að því er lögmætið varðar, mætti spyrja þig hvort þú hafir þá lesið lögin eða einhver lögfræðiálit þessu tengt sem þú byggir þína afstöðu á eða ertu bara að enduróma það sem einhverjir aðrir hafa sagt?
Ef lögbrotin eru jafn skýr og afdráttarlaus og þú vilt láta í veðri vaka, ertu þá með einhverjar tilgátur um af hverju lögregla eða aðrir eftirlitsaðilar sjái málið í öðru ljósi? Finnst þér sæmandi sem fyrrverandi formaður BSRB að líkja lögreglu við ,,hræddann rakka einhverstaðar út í horni”?
Þegar þú fullyrðir að það sé ,,mjög mikil fylgni milli þess hvernig áfengi er dreift og neyslu” ertu þá að vitna til þess að í löndum þar sem ríkið rekur einokunarverslanir hefur neysla annað hvort staðið í stað eða aukist en fer hinsvegar minnkandi sunnar í Evrópu hvar viðskiptafrelsi er við lýði?
Kveðja,
Arnar

Sæll Arnar.
Ég vil svara því sem um er spurt þótt spurningar þínar og fullyrðingar renni nokkuð saman í eitt.
Árangur í lýðheilsumálum rek ég til fjölmargra þátta, einkasölu ríkisins á áfengi sem byggist á lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstétta, öflugs íþrótta- og tómstundastarfs ungmenna, en ekki síst til allra þeirra forvarnarsamtaka sem standa gegn markaðsvæðingu áfengra drykkja. Þessi samtök hafa staðið fyrir fræðslu og margvíslegum átaksverkefnum sem hafa skilað miklum árangri. Þau hafa m.a. starfað á grunni ábendinga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og fleiri um forvarnir. Sjá nánar: https://www.who.int/initiatives/SAFER Mér er kunnugt um að þessir aðilar eru nú miður sín vegna þess hve mjög ágengir áfengissalar grafa undan starfi þeirra.
Varðandi fjölda verslana ÁTVR með hliðsjón af íbúafjölda ber að hafa í huga að Ísland er fámennt dreifbýlt land. Án ríkiseinkasölunnar væru verslanirnar sem seldu áfengi hins vegar miklu fleiri og hefðu markaðssjónarmið að leiðarljósi til að selja sem mest.
Þú vísar til dómsmála sem þú hefur höfðað. Þau þekki ég ekki að því marki að ég treysti mér til að hafa á þeim skoðun. En auðvitað á í þessu efni sem öðrum að fara að lögum.
Hvort ég hafi kynnt mér lögin um einkarétt ÁTVR og dóma í sambærilegum málum erlendis þá er svarið að það hef ég gert. Ég vísa í ágætan formála forstjóra ÁTVR í ársskýrslu fyrir árið 2023 þar sem hann tíundar meðal annars sænskan hæstaréttardóm sem hefur þýðingu til skilningsauka á málarekstri hér: Inngangur (atvr.is)
Í þessum dómi kemur afdráttarlaust fram að þótt netsala landa á milli sé heimil samkvæmt evrópsku regluverki, er hún það ekki ef um er að ræða sölu úr lager innanlands eins og farið er að stunda hér. Útfærsla netsölu á Íslandi byggir á því að selja og afhenda áfengi af lager innanlands í smásölu til neytenda þvert á einkaleyfi ÁTVR. Slík smásala er ekki innflutningur einstaklinga á eigin vegum til einkaneyslu sem er leyfð skv. EES. Lagerinn er innanlands og er það eitt lykilatriðið. Smásala áfengis, annarra en ÁTVR, af lager innanlands er þannig ekki heimil hvort sem um innlenda eða erlenda netverslun er að ræða. Þar er ekkert ójafnræði á milli. Báðar eru jafnólöglegar.
Lögin eru algerlega skýr að því er ég fæ best skilið. Þá bendi ég á að dómsmálaráðherra telur nauðsynlegt að breyta lögum svo netverslun verði lögleg. Það segir sína sögu. Svör dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi síðastliðinn desember eru afdráttarlaus hvað þetta varðar: Dómsmálaráðherrar síðustu ára hafa unnið að frumvörpum til breytinga á áfengislögum sem m.a. hefur verið ætlað að lögfesta heimild til reksturs innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda. Frumvarp þess efnis var m.a. lagt fyrir ríkisstjórn síðastliðinn vetur en náði ekki fram að ganga. Dómsmálaráðherra hyggst leggja það frumvarp fram að nýju í upphafi næsta árs.
Sjá nánar: https://www.althingi.is/altext/154/s/0706.html
Varðandi ummæli mín um afskiptaleysi ákæruvalds og lögreglu þá er það vissulega rétt hjá þér að ég hefði mátt velja önnur orð en ég hafði um lögregluna en þau eru til komin vegna áralangs afskiptaleysis af augljósum lögbrotum vegna áfengisauglýsinga og nú ólöglegri áfengissölu með öllum þeim ósvífnu bellibrögðum sem beitt er og þá ekki síst gagnvart unglingum. Þegar verslunareigendur síðan stíga fram og segjast ætla að fara sínu fram í trássi við lög þá einfaldlega sýður upp úr. Mér finnst afskiptaleysi ákæruvalds og lögreglu hafa verið mjög ámælisvert þótt það eigi að sjálfsögðu að orða gagnrýni á þetta ráðslag á annan veg en ég gerði í umræddu viðtali.
Varðandi fylgni á milli neyslu og dreifingarmátans þá liggja fyrir ýmsar athuganir á því meðal annars af hálfu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og skýra niðurstöðurnar hvers vegna sú stofnun hefur tekið mjög eindregna afstöðu gegn afnámi einkasölu ríkisins á áfengi. Alcohol availability (who.int). Stofnunin sendi nýlega sérstakt erindi til íslenskra heilbrigðisyfirvalda þar sem þessi afstaða var áréttuð.
Hvað varðar áfengisneyslu í norðanverðri- og sunnaverðri Evrópu sem þú víkur að þá koma eflaust ýmsir þættir til álita. Þannig geta neysluvenjur tekið breytingum óháð dreifingarmátanum. Það breytir því þó ekki að dreifingarmátinn skiptir máli og meira að segja má ætla að hann sé afgerandi þegar kemur að neyslu áfengis.
Með kveðju,
Ögmundur