Fara í efni

ANDSTAÐA BEGGJA FYLKINGA VIÐ RAMMAÁTLUN

Um áratugaskeið hafa helstu rök virkjanasinna og náttúruverndarsinna, þegar tekist er á um virkjun eða vernd, verið þau að nauðsynlegt sé að flokka virkjunarkosti á faglegan hátt, annað hvort vernda viðkomandi náttúru eða virkja, gera rammaáætlun.
Virkjunarsinnar, sem aðallega eru hagsmunagæslumenn erlendra stóriðjueigenda, og aðrir þeir sem þéna á virkjunum, verkfræðistofur og innflytjendur, sögðu að á meðan slík áætlun er ekki til þá er ekki hægt að stöðva áform okkar. Náttúruverndarsinnar hafa notað sömu rök, meðan svæðið hefur ekki verið faglega metið þá er ekki hægt að virkja, þess vegna verðum við að fá Rammaáætlun.
Nú er Rammaáætlun ásamt ferlinu í kringum hana tilbúin og þá skyldi maður ætla að ágreingur um þessi mál væri úr sögunni. Er það svo? Nei alls ekki, vegna þess að hvorugur hópurinn vildi í raun slíka áætlun. Virkjunarsinnar vilja og vildu aldrei að einhver andsk... rammaáætlun sé að þvælast fyrir áformum þeirra. Sama má segja um nátturverndarsinna.
Ég stend með verndun náttúrunnar en sætti mig við Rammaáætlun. En ég sætti mig engan veginn við frekari uppbyggingu stóriðju. Nóg er búið að rústa óafturkræft af íslenskri náttúru fyrir stóriðju sem íslenska ríkið þénar ekki krónu á heldur verður að borga með.
Pétur Kristjánsson