ALÞINGISKOSNINGAR OG MÁLEFNI NÁMSMANNA
Sæll Ögmundur.
Ég heiti Jón Hnefill Jakobsson og er 25 ára gamall námsmaður í margmiðlunarhönnun við Københavns Tekniske Skole í Kaupmannahöfn og vinn meðfram námi sem vefforritari/hönnuður fyrir Saxo Bank í Kaupmannahöfn.
Ég rakst á netfangið þitt í gegnum bloggsíðuna þína þegar að ég var á mínum venjulega bloggrúnti.
Mig langaði til þess að forvitnast aðeins um stefnumál Vinstri Grænna þar sem ég er mikill áhugamaður um stjórnmál og er nokkuð klofinn í afstöðu minni til íslenskra stjórnmálaflokka um þessar mundir.
Það atriði sem ég hef sérstaklega verið að leita eftir eru málefni námsmanna og námsmannahreyfingarinnar. Ég fór að gamni inn á heimasíðu allra stjórnmálaflokka á Íslandi og leitaði sérstaklega eftir menntamálum. Vissulega er þar að finna fögur loforð um hvernig hægt sé að bæta íslenskt menntakerfi en það virðist hvergi vera, hjá einum einasta flokki, minnst á okkur sem erum í námi.
Nú hefur Stúdentaráð, SÍNE og BÍSN unnið stórkostlegt og óeigingjarnt starf fyrir íslenska námsmenn heima og erlendis og vissulega hefur orðið framför í afgreiðlsu námslána frá LÍN.
Það eru hins vegar brotalamirnar sem vekja sérstaka eftirtekt hjá mér þar sem að ég hef hvergi rekist á neinar tilögur um hvernig sé best sé að vinna úr þeim.
Námslán eru t.a.m. reiknuð miðað við gengi þess tíma sem úthlutun á sér stað. Oftast í maí ef að minnið svíkur mig ekki. Svo þegar að okkar mjög svo óstöðuga króna fer á flug gerist það eins og t.d. það sem að við námsmenn í Kaupmannahöfn höfum þurft að búa við sl. mánuði; okkar námslán skerðast vegna gengisbreytinga og eru þess vegna ekki þau sömu og námsmenn heima á Íslandi njóta.
Það er ákveðin kaldhæðni að til þess að koma til móts við þarfir námsmanna að loknu námi þá sé það í verkahring bankanna að bjóða upp á fyrirkomulag sem að hentar námsmönnum í formi námslokalána og betri greiðslubyrði íbúðalána svo eitthvað sé nefnt. Það hlýtur að vera hægt að bjóða upp á betri kosti - Þetta eru jú einu sinni lánveitingar frá ríkinu.
Námslán hafa hækkað undanfarin ár en enn er svo komið að þau flokkast undir fátæktarmörkum og þau hafa ekki haldist í hendur við verðlagsþróun. Ef að minnið svíkur mig ekki er hagstæðara að vera á atvinnuleysisbótum en á námslánum; og námslánin þarf að greiða til baka með vöxtum nota bene.
Til þess að komast af bregða flestallir námsmenn, og þar með talið undirritaður, á það ráð að verða sér út um vinnu meðfram námi, óháð því hversu mikil vinna fylgir því að vera í námi á háskólastigi. Þetta er úrræði sem við verðum að notast við til þess að geta séð okkur farborða. Samt sem áður skerðir þetta rétt okkar til námslána þó svo að sú skerðing sé sem betur fer minni nú en áður var. Okkur er s.s. refsað fyrir að vilja geta lifað af og séð til þess að við höfum næga fjármuni til þess að geta stundað nám okkar af sóma.
Það vekur alltaf jafn mikla furðu hjá mér að málefni námsmanna skuli gleymast og hverfa fyrir hverjar einustu kosningar. Stundum hef ég það á tilfinningunni að við séum þjóðfélagshópur sem að skiptir engu máli hjá stjórnmálamönnum á Íslandi í dag.
Það væri gaman að heyra frá þér hvort að þinn stjórnmálaflokkur ætli að beita sér í málefnum námsmanna. Það fer allavega lítið fyrir þeirri baráttu miðað við umræðuna eins og hún er í dag. Það er eins og að það gleymist hversu stórt hlutfall kjósenda við erum í raun og veru.
Bestu kveðjur frá Kaupmannahöfn,
Jón Hnefill Jakobsson
Sæll Jón Hnefill og takk fyrir upplýsandi bréf. Það er rétt að það er svo sannarlega kominn tími til að endurskoða aftur lög um Lánasjóð Íslenskra námsmanna. Ný lög voru sett árið 1992 og var þá brotið blað í sögunni með því viðhorfi að LÍN væri ekki stuðningur ríkisins við námsmenn heldur ætti sjóðurinn helst að standa undir sér. Afleiðingarnar urðu þær að endurgreiðslan var að sliga fólk eftir að námi lauk og barátta næstu ára fór í að leiðrétta það. Fyrir óþreytandi starf námsmannahreyfinganna tókst að vinda aðeins ofan af endurgreiðslubyrðinni en þó hefur ekki nóg verið að gert. Baráttumál námsmanna var þá að fá samtímagreiðslur úr sjóðnum sem leiddi til stórkostlegra gjafa ríkisins til bankanna, þar sem bankarnir buðu samtímagreiðslur en Lánasjóðurinn greiddi vaxtastyrk til að brúa vaxtakostnað námsmanna af yfirdráttarlánunum. Fyrir kosningarnar 1999 voru kjör Lánasjóðsins mjög til umfjöllunar og þá settum við í Vinstri grænum fram þá sýn að við vildum þróa Lánakerfið okkar í átt að því sem gerist (eða gerðist þá) í Skandinavíu. Lánasjóður Íslenskra námsmanna á að vera tæki samfélagsins til að hvetja fólk til náms og styðja við bakið á því . LÍN á ekki að vera gróðafyrirtæki og þaðan af síður að leggja stein í götu þeirra sem hyggja á nám, hérlendis eða erlendis. Í því felst að fólk geti lifað á þeim lánum sem LÍN býður upp á.
Við höfum einnig lagt ríka áherslu á að lækka endurgreiðslubyrði námslána. Til greina kemur að taka upp námsstyrki auk námslána og enn fremur að endurgreiðslur námslána verði að hluta til frádráttarbærar frá skatti. Auk þess ber að líta til þess að þeir sem eru að greiða af námslánum eru yfirleitt samtímis að koma sér þaki yfir höfuðið og greiða fyrir menntun barna sinna í formi leikskólagjalda, heilsdagsvistunar og tómstundagjalda ýmiskonar og þarf að skoða þetta allt í samhengi.
Ég þakka þér fyrir að minna okkur á mikilvægi þessarar baráttu um leið og ég fullvissa þig um að núverandi námslánakerfi fellur ekki að hugmyndum okkar um hlutverk LÍN.
Með kveðju,
Ögmundur