Fara í efni

ALÞINGI VERÐUR AÐ REKA AF SÉR SLYÐRUORÐIÐ

Við höfum mátt hlusta á það árum saman á tyllidögum, í hrunskýrslum og stjórnarskrárumræðu að einn helsti veikleiki íslensks stjórnkerfis sé máttleysi þings gagnvart framkvæmdavaldi. Nú sýnir Alþingi áður óþekktan doða með því að afneita hlutverki sínu við að láta ráðherra standa skil á hvernig þeir fara með vald sitt - en láta lögreglustjóranum í Reykjavík það eftir. Leki trúnaðargagna kann að vera lögreglumál. Ráðherra svarar hinsvegar til ábyrgðar gagnvart Alþingi og á að svara til ábyrgðar á þeim vettvangi.
Það getur varla verið ástæða aðgerðarleysis þingsins að bíða rannsóknar í óskyldu máli? Í þessu tilviki hefur ráðherra skýlaust neitað að hafa nokkra vitneskju um tilvist skjals sem hún hafði sannanlega fengið afhent af starfsmönnum ráðuneytisins. Yfirlýsingar ráðherrans voru skýrar og afdráttarlausar. Fjölmiðlar vísuðu upphaflega til þess að þeir hefðu undir höndum óformlegt minnisblað úr ráðuneytinu. Ráðherrann þvertók fyrir að vita nokkuð um til hvers væri vísað og fullyrti að engin gögn í ráðuneytinu kæmu heim og saman við þessa lýsingu. Þessar yfirlýsingar voru gefnar á Alþingi og gagnvart almenningi.
Alþingi verður að sýna að það taki hlutverk sitt og stöðu alvarlega. Alþingi getur ekki setið aðgerðalaust í skjóli þess að lögreglustjórinn í Reykjavík sé að vinna sína vinnu, þ.e. að rannsaka einhvern kima málsins með vísan í afmörkuð lagaparagröf. Lögreglustjanum er ekki ætlað vernda lýðræðsihefðir og stjórnarskrá, þar sem ráðherrar svara til ábyrgðar gagnvart þingi og kjósendum að endingu.
Alþingi verður að reka af sér slyðruorðið og komast til botns í þessu máli á eigin forsendum og að eigin frumkvæði. Alþingi hlýtur að eiga farveg og úrræði til að taka af tvímæli um sjálfstæði sitt og styrk.
Finnbogi