Fara í efni

ALLIR Á ÁRARNAR

Sæll Ögmundur!
Líklega hefur þessi þjóð sjaldan staðið frammi fyrir líkum vanda og nú eftir fyllirí markaðsgemsanna í boði Sjálfstæðisflokksins. Í ljósi sögunnar sjáum við að þessari þjóð er fátt ofvaxið þegar hún gengur samhent og heils hugar til verks. Vandi okkar í dag er hinsvegar sá að nú er þjóðin sundruð og ráðvillt sem aldrei fyrr, sem auk vaxandi reiði er sá vandi sem fyrst þyrfti að leysa en lítil merki sjást ennþá um betri tíð í því efni. Reiði mín í dag er mikil og fer vaxandi. Sú reiði sem mér er nú erfiðust er reiðin út í hina svonefndu "sérfræðinga" sem farið hafa hamförum undangengin missiri og talar þar hver í sína átt líkt og sauðdrukknir gangnamenn í blindþoku. Er það ekki lágmarkskrafa til fólks sem þetta samfélag hefur séð fyrir skólagöngu gegn um jafnvel áratugi hunskist til að leyfa fræðimennskunni að hafa forgang fram yfir blinda flokkshollustu? Það er nefnilega í mínum huga forsenda fyrir farsælli lausn á þeim risavöxnu verkefnum sem samfélagið stendur nú frammi fyrir að allir leggist heils hugar á árar með hagsmuni næstu kynslóða að leiðarljósi.
Árni Gunnarrsson