Fara í efni

Af BÆ MEÐ SAM

Sæll Ögmundur.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sá ástæðu til þess í hádegisfréttum í dag að reyna að normalísera ummæli, sem höfð eru eftir sendiherra Íslands í Bandaríkjunum í samantekt starfsmanns bandaríska sendiráðsins sem hann sendi til yfirboðara sinna Washington. Nú ætla ég ekki að hafa skoðun á regluverkinu sem reyndustu diplómatar við Rauðarárstíg styðjast við og alls ekki hvernig menn inna af hendi það sem þeim væntanlega er falið. Haft er eftir utanríkisráðherra að hann tali „sjálfur vafningalaust við sendimenn erlendra ríkja, ekki síst þegar deilu okkar við Breta og Hollendinga ber á góma, og er ánægður með að embættismenn mínir skafa ekki utan af hlutunum fremur en ráðherrann."
Það er allt gott og blessað, en ummæli sendiherrans um forseta lýðveldisins eru óafsakanleg að mínum dómi, ekki gagnvart Ólafi Ragnari Grímssyni heldur þjóðhöfðingja Íslendinga, gagnvart þjóðinni sem kaus hann til embættis. Hvers konar þjóð kýs sér óútreiknanlegan forseta? Watson sá ameríski skilur málið. Þetta hefði utanríkisráðherra mátt hafa í huga þegar hann undirbjó sig fyrir viðtalið í hádegisfréttum. Annað atriði sem bendir til að ekki sé allt með felldu í utanríkisráðuneytinu, en það er þessi hluti úr skýrslu Watsons sem hann dregur sérstaklega athygli að: „Despite his and his family's long association with the Progressive Party, Hannesson said that this was not the time for elections or a change of government. He added that he did not sense a willingness on the part of the opposition to take control of the government."
Hér gerir sendiherra sig sekan um að blanda saman prívat viðhorfum, sinni eigin pólitísku skoðun, inn í það sem á að vera hlutlægt mat á pólitískri stöðu í landinu. Og ekki skilur maður að inní þetta mat skuli hafa þurft að gera grein fyrir flokksskírteinum fjölskyldu sendiherrans. Það þarf að biðja þjóðina afsökunar á að gera lítið úr henni með því að tala niðrandi um forseta, og það þarf að biðja Sam Watson, sendimanninn bandaríska forláts á heimóttarskapnum. Fulltrúar okkar verða að skilja að þeir tala í nafni þjóðar í viðræðum við sendimenn erlendra ríkja þar sem flokksskírteini fjölskyldu manns skiptir engu sérstöku máli.
Ólína