Fara í efni

AÐGÁT SKAL HÖFÐ

Ungur var ég að árum þegar ég las ljóð Einars Benediktssonar, Einræður Starkaðar, og enn hefur sá mannúðar boðskapur sem þar er að finna ekki liðið mér úr minni. Oft finnst mér að "hneykslunarhellur" nútímans, sem ekkert "misjafnt mega sjá", mættu að ósekju lesa þetta ljóð Einars. Þar á meðal eru "samviskuhellurnar" sem súpa nú hveljur yfir því að nýskipaður héraðsdómari úti á landi sé óhæfur til starfans fyrir það eitt að vera sonur pabba síns. Mig langar að rifja upp eftirfarandi erindi úr Einræðunum en það skildi ég á þann veg að sérhver einstaklingur, hvort sem hann aumur sýndist eða sterkur, ætti sem manneskja ákveðinn rétt á því að ég sýndi honum í það minnsta lágmarks virðingu:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Þjóðólfur