Fara í efni

AÐFERÐ DAVÍÐS: OLÍA Á BÁLIÐ

Heill og sæll Ögmundur.
Davíð Oddsson leikur sér að eldinum Ef brotist er inn í húsið okkar er sjálfsagt að hringja í lögregluna og kæra innbrotið og vænta þess að lögreglan hafi uppi á innbrotsþjófnum og skili þýfinu til eiganda. Nú hefur einn fyrrum stjórnmálamaður átt meginþátt í að gera einkabanka upptækan í skjóli nætur, nefnt hefur verið bankarán í því sambandi. Hátt í 12 þúsund borgarar sitja uppi með skarðan hlut sem hluthafar. Nú gengur það fjöllunum hærra að fyrrum forsætisráðherra beri sérstakan kala til eins af stærstu hluthöfum Glitnis banka og þessi sérstaka aðferð sé til þess fallin að grafa fjárhagslega undan þessum einstakling. Á sama tíma hefur ríkissjóður að því er virðist hafa auðgast um meira en 100 milljarða íslenskra króna. Nú kemur sjálfsagt engum til hugar að hringja í lögregluna og kæra þessa tegund innbrots. Vitað er hver höfuðpaurinn er en enginn þorir enda hefur þessi kumpáni ótrúlega mikil völd í samfélaginu. Aðferðir hans minna stundum á brúnstakka Mússólínis þar sem ekki var spurt um löglegar heimildir ef þrífa þurfti í samfélaginu í þágu einræðiherrans. Því miður er klappliðið enn allfjölmennt og hrósa Davíð fyrir hversu „þorinn og klár" hann sé að berja á andstæðingum sínum. Aðferð Davíðs Oddssonar að koma höggi á Jón Ásgeir og Jóhannes föður hans verður að teljast eins og hvert annað klámhögg sem minnir á aðferðir afdankaðra kommúnistaleiðtoga fyrr á tímum að kúga lýðinn áður fyrr. Það fer þvert á eðlileg viðbrögð opinbers aðila í kapítalísku samfélagi þar sem réttur frjálsra viðskipta á að vera virtur í hvívetna. Hlutverk opinberra sjóða er ekki að þjóðnýta. Hlutverkið á að vera fyrst og fremst að halda uppi að sanngjörnum leikreglum sé fylgt og þær eiga að vera skýrar og öllum ljósar: Ef banki sem er annars mjög vel rekinn, kemst í tímabundna erfiðleika, þarf það opinbera að hlaupa eðlilega undir bagga meðan vandræðaástandið stendur yfir. Tímabundnar lánveitingar hefðu verið mun eðlilegri og þeim hefði auðvitað verið unnt að binda sanngjörnum skilyrðum. Það hefði haft þau áhrif að kæla og róa markaðinn niður sem ekki hefði verið vanþörf á. Aðferð Davíðs Oddssonar er eins arfavitlaus og verður honum tæplega talið til mikils framdráttar þegar fram líða stundir. Í stað þess að slökkva eldinn eys hann olíu miskunnarlaust á bálið og skilur allt þjóðfélagið eftir í fullkominni örvæntingu. Markaðurinn er í algjöru uppnámi, jafnvel upplausnarástandi enda hefur gengi krónuræksninsins okkar aldrei verið lægra og hrapið aldrei veriið meira en undanfarna daga. Íslensk fyrirtæki standa undir enn meiri erfiðleikum en verið hefur fram að þessu, sum fyrirtæki ramba jafnvel á barmi fjárþrots m.a vegna okurlánastefnu Seðlabankans sem Davíð rekur eins og rússneskt hænsnabú. Íslensk alþýða kiknar undan álaginu af þverrandi kaupmætti með vaxandi dýrtíð og óvissu um framtíðina. Sjálfstæðisflokkurinn er í þann veg að skilja þjóðina í algjörri óvissu og hefur með þessu síðasta axarskafti Davíðs Oddssonar gengið lengra en nokkurn stjórnmálamann hefur látið sér nokkru sinni dottið í hug. Kannski hann sé eins og hver annar gamaldags stjórnmálamaður sem lítur yfir leiksvið sögunnar eins og hann ráði öllu bak við luktu múrana í Kreml. Góður stjórnmálamaður hugar að hag allrar þjóðarinnar hvort sem það eru athafnarmenn af öllu tagi eða ósköp venjulegt fólk eins og Mosi telur sig teljast með.
Mosi