Fara í efni

AÐ ÞORA OG ÞEGJA

Við þorum þegar aðrir þegja, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar á fundi með flokkssystkinum sínum um helgina. Yfirlýsingarnar fengum við hin síðan að heyra í fréttum. Þetta ágæta slagorð – þora þegar aðrir þegja -  var fyrirsögn á lesendabréfi hér á síðu þinni fyir nokkrum dögum, Ögmundur, en þar var það álit  bréfritara, Sigurðar Bjarnasonar, að það væri VG en ekki Samfylkingin sem þyrði! Því er ég sammála.
Og sannast sagna varð mér öllum lokið þegar ég heyrði ISG segja við sama tilefni að stækkun álversins í Hafnarfirði væri einvörðungu á ábyrgð Hafnfirðinga,  þetta væri fyrst og síðast “þeirra ákvöðrun”!
Stækkun álversins í Straumsvík kemur að sjálfsögðu landsmönnum öllum við bæði í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. Ákvörðunin hefur áhrif á allt efnhagslífið og orkuna þarf að ná í utan Hafnarfjarðar. Mér sýnist hið sama vera að gerast í þessu máli og í Reykjavík forðum. Þegar Ingibjörg Sólrún, þáverandi borgarstjóri, treysti sér ekki í andstöðu gegn Kárahnjúkavirkjun þegar atkvæði var greitt um það í borginni hvort heimila ætti Landsvirkjun að ráðast í náttúruspjöllin fyrir austan, þá var einmitt sagt að þetta væri á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Nú á að leika sama leikinn. Það sé ekki flokksforystu Samfylkingarinnar að taka afsötðu til kröfu Alcans um stækkun álbræðslunnar – þetta sé algerlega málefni Hafnfirðinga. Og er ég þá kominn að efni þessa bréfs.
Er það þetta sem formaður Samfylkingarinnar kallar að þora í stjórnmálum? Væri kannski skömminni skárra fyrir Samfylkinguna að þegja bara alveg? Ég er farinn að hallast helst að því.
Haffi