Fara í efni

AÐ TAKA EINN BRÉSNEF

Ég er sammála þér um Brésneflíkinguna hvað varðar samráðsleysi ríkisstjórnarinnar við stjórnarandstöðuna. Tilskipanir og tilkynningar kalla ráðherrarnir samráð! En það eru fleiri en ríkisstjórnin sem eru þessu markinu brennd. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum eftir að hlusta á utandagskrárumræðuna um einkvæðinguna á Landspítalanum fyrir nokkrum dögum. Þú vaktir máls á ýmsum þáttum og sýndir fram á hvað væri að gerast. Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra stóð á gati og fulltrúar Samfylkingarinnar, litlu sálarinnar sem þú nefndir svo, tóku undir með heilbrigðisráðherranum. Myndin sem dregin var upp í fjölmiðlum var út úr öllu korti. Í einum fjölmiðli var Ellert B. Schram látinn ljúka fréttinni með því að segja að Samfylkingin myndi aldrei samþykkja einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þótt verið væri að sýna fram á að einmitt það væri að gerast!!! Í öðrum fjölmiðli var okkur sagt að ráðherrann væri að spara 16 milljónir. Er það rétt? Ég held ekki, ég held að held að hér sé verið að hagræða staðreyndum. En þurfa fjölmiðlar ekki að kanna það? Verður það látið ógert? Ef svo er þá kalla ég þeirra framlag „að taka Brésnef."
Haffi  

Þakka þér bréfið Haffi. Ég er sammála þér að kanna þarf fullyrðingar heilbrigðisráðherra. Hvað samanburð á fréttum annars vegar og umræðunni hins vegar áhrærir, þá geta menn dæmt fyrir sig, þ.e. þeir sem heyrðu fréttirnar því hér er umræðan: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20080403T110102&end=2008-04-03T11:35:56 Kv.
Ögmundur