Fara í efni

Á ÁFRAM AÐ RÆNA ÞJÓÐINA VÖLDUM?

Ég hlustaði á Silfur Egils í dag þar sem meðal annars var talað um málskotsrétt forsetans og stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð einsog samkoman mun heita ef samþykki fæst á Alþingi að hnekkja úrskurði Hæstaréttar. Nýkjörinn fulltrúi á hið ógilta stjórnlagaþing sagði í þættinum að öllum væri „sléttsama" hvernig þau væru kosin ef þau skiluðu góðu verki og bætti við að Hæstiréttur og Alþingi væru vanhæf vegna hagsmuna sinna af óbreyttu ástandi.
Sjálfur velti ég því fyrir mér hvort vanhæfu einstaklingarnir í þessari umræðu væru ekki þeir sem nú væru að berjast fyrir því að komast inn á launaskrá með því að hunsa úrskurð Hæstaréttar!
En það var annað sem ekki síður vakti athygli mína. Það var skilgreining sagnfræðings á málskotsréttinum sem hann sagði að væri gamall konungsréttur. Í mínum huga skiptir þessi uppruni engu máli þótti forvitnilegur kunni að vera, heldur hitt hvert inntak hans er núna.
Allir viðmælendur ræddu málskotsréttinn sem sérstakt vandamál tengt forsetanum. En er ekki vandamálið þá lýðræðið og þjóðin? Það sem forsetinn er að gera á nefnilega ekkert skylt við gamalt konungsvald heldur ákvörunarrétt þjóðarinnar - lýðræðislegan skilning okkar í upphafi 21. aldarinnar. Í þættinum talaði einhver um „alræðisvald" forsetans og „neitunarvald"!
Einhvern veginn fannst mér sumir viðmælendur í þættinum væru rígfastir í gamalli konungshugsun liðinna alda.
Veruleikinn er sá að verið er að skjóta málum til ákvörðunar hjá þjóðinni. Ef það er vandamál þá er það ekki forsetinn sem er rót vandans heldur þjóðin því það er hún sem tekur endanlega ákvörðun.
Í mínum huga er þjóðin ekki vandamálið heldur það fólk sem reynir að ræna hana völdum.
Almeningur hefur í aldanna rás verið rændur völdum og áhrifum af fámennisklíkum, kóngum og síðan forræðisöflum af ýmsum toga. Það er komið nóg af slíku.
Grímur