Fara í efni

1200 HUNDRUÐ INN OG 1200 ÚT, OG ALMENNINGUR BORGAR

Sæll Ögmundur.
Æskuvinkona mín fluttist til Ísafjarðar á áttunda áratugnum. Hún er að vísu flutt í bæinn aftur en þekkir til á Ísafirði. Hún þóttist taka eftir því að sjónvarpsviðtölin við nýbakaðan iðnaðarráðherrann voru tekin við Edinborg og hringdi í mig til að ræða frammistöðu ráðherrans. Hann var að boða stórsókn í sértækum byggðaaðgerðum. Guð láti gott á vita – gefi bæði sól og hita. Hún sagðist hafa þekkt marga þá sem látnir voru sitja í hálfrökkrinu undir power-point sjói ráðherrans. Sena hönnuð af aðstoðarmanninum. Henni fannst fólk hálf niðurdregið. Kannski vegna vitneskjunnar um að stutt þar frá sem ráðherrann prédikaði um bjarta framtíð standa tvö verksmiðjuhús ónotuð. Þau er bæði hægt að fá keypt eða leigð. Æskuvinkonu minni fannst það gott “stunt” hjá ráðherranum að komast hjá því að mæta raunveruleikanum fyrir vestan. Fjölmiðlar hefðu mátt spyrja hann um sprotafyrirtækin sem þar leggja nú upp laupana hvert af öðru, eða hvort til greina kæmi til dæmis að setja niður olíuhreinsunarstöð nærri Keldudal. Ekki alslæmt að setja niður höfn í grennd við Lendingar og Bólanes og afkastamikla verksmiðju í mynni dalsins. Þá lifnaði nú heldur betur yfir mannlífinu í hreppnum. Merkilegt hve lítið skynbragð, merkisberar eða handhafar svokallaðrar jafnaðarstefnu, bera nú á baráttu Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrir því að reyna að tryggja eignarhald almennings á auðlindunum. Hefði ekki rökrétt framhald á þeirri baráttu verið að koma í veg fyrir að einstaklingur flytti suður með þær 1200 milljónir króna sem eigandinn, sjómenn og verkafólk í landi skópu saman í sjávarþorpi á Vestfjörðum í 25 ár? Þær 1200 milljónir sem einn einstaklingur fer með er nákvæmlega upphæðin sem iðnaðarráðherra ætlar okkur hinum að greiða uppí skuld Byggðastofnunar svo hún geti forðað fyrirtækjum frá fárinu sem varð þegar kvótinn var seldur! Fyrirgefðu fröken, en er ekki eitthvað bogið við þetta kerfi, sagði maðurinn minn við mig, þegar ég greindi honum frá samræðunum við æskuvinkonuna. Ert þú sama sinnis og eiginmaðurinn Ögmundur?
Kveðja,
Ólína

Sæl Ólína og þakka þér fyrir bréfið og spurninguna. Svarið er Já, ég er sama sinnis og eiginmaðurinn.
Kv.,
Ögmundur