VESÆLT AÐ GRÆÐA Á VEIKUM

Án efa er vesælasti kapitalismi sem til er að græða á veikum.
Þetta er jafnframt gjöfulasta og auðveldasta gróðalindin.
Veikir VERÐA að fá aðhlynningu og eru tilbúnir að gjalda með
aleigunni ef því er að skipta. Formúlan til að virkja þessa
gróðalind er einföld: Fá til valda aðila sem eru handgengnir
fjármagninu, reiðubúnir að skera niður og auðvelda fjárfestum
aðgang að auðlindinni - hinum sjúku. Og bingó, gróðinn er í höfn.
Og nú er komin svona ríkisstjórn! Handlangarar einkaframtaksins -
líka í heilbrigðisþjónustunni.
Brjóstvörnin BSRB
Um þetta hef ég skrifað ófáar greinar á liðnum árum þegar þessi
hætta hefur verið yfirvofandi. BSRB var óþreytandi að veita
upplýsingum inn í íslenska umræðu um ókosti markaðsvæðingar
heilbrigðiskerfisins og hafa samtökin lengi verið brjóstvörn
almannaþjónustunnar. (Sjá til dæmis hér:
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/2809/
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/3458/
http://ogmundur.is/umheimur/nr/2397/
http://ogmundur.is/samfelagsal/nr/2327/
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1617/
Góður fræðimaður - liðsmaður almannahagsmuna Það er gott til þess að
vita að Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og fyrrverandi
alþingismaður, skuli vera kominn til starfa hjá Fafo,
rannsóknarstofnun sem starfar í tengslum við norsku
verkalýðshreyfinguna, þar sem hún meðal annars vinnur að rannsóknum
á afleiðingum einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu.
Eftrifarandi er nýjasta færsla hennar á facebook síðu hennar:
"Einkavæðing velferðarþjónustunnar er tap almennings en gróði
einkaaðila! Rannsóknir á Norðurlöndunum sýna að aukin starfsemi
einkaaðila í velferðarþjónustunni, þ.e. í umönnunar-, heilbrigðis-
og skólaþjónustunni hefur hvorki leitt til sparnaðar fyrir ríkið né
til betri þjónustu. Ríkið þarf að leggja út fyrir aukinni umsýslu
vegna útboða og samninga við einkaaðila um þjónustuna. Síðan bætist
við kostnaður vegna eftirlits með að einkaaðilar standi við gerða
samninga og keyri reksturinn ekki í þrot. Svíar eru komnir lengst
Norðurlanda í einkavæðingu velferðarþjónustunnar og hagnaður
velferðarfyrirtækja í einkaeigu hefur verið meiri en annarra
fyrirtækja í einkageiranum. Velferðarfyrirtækin eru yfirleitt
stórfyrirtæki með aðsetur í skattaskjólum. Skattgreiðslur
velferðarfyrirtækjanna eru nánast engar, þar sem eigendur þeirra
hafa lánað þeim fjármagn á mjög háum vöxtum (sbr.
álfyrirtækin á Íslandi). Ríkið er best til þess fallið að reka
almannaþjónustuna! Að halda öðru fram er hrein
hugmyndafræði." https://www.facebook.com/liljamos
Vilja græða á veikum
En hvers vegna taka þetta upp nú? Tilefnið er tilkynning
þess efnis að einkavæðing heilbrigðiskerfisins sé nú að nýju komin
á fullan skrið þótt hún sé tekin í áföngum. Á mbl. is í gær sagði
m.a.:
"Broadway verður breytt í lækna- og heilsumiðstöð og
Park Inn hótel þróast í heilsuhótel. Þetta er meðal þess sem verður
kynnt á blaðamannafundi síðar í dag. Um rúmlega tveggja milljarða
króna fjárfestingu er að ræða.
Á fundinum verða Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður EVA
consortium ehf. og heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson en
þau munu kynna breytingarnar sem gerðar verða á húsnæðinu.
Park Inn hótel hét áður Hótel Ísland en nýverið eignaðist Arion
banki Hótel Ísland sem var dótturfélag Hótels Sögu. Er það hluti af
samningum um skuldir Hótels Sögu sem er í eigu Bændasamtaka
Íslands.
Sinnum, sem er í eigu EVA consortium, rekur sjúkrahótel á Park Inn
en fyrirtækið fékk verkefnið eftir útboð. Samningur var gerður til
tveggja ára sem unnt er að framlengja í eitt ár í senn. Sinnum sér
um rekstur hótelsins, m.a. matargerð og þrif, en Landspítalinn sér
um hjúkrunarþjónustuna.
Hluthafar í EVU ehf. eru Gekka ehf. sem er í eigu Ásdísar Höllu
Bragadóttur og Aðalsteins Jónassonar og Flösin ehf. sem er í eigu
Ástu Þórarinsdóttur og Gunnars Viðar."
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/12/05/broadway_breytt_i_laeknamidstod/
Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, og Ásdís
Halla Bragadóttir fjárfestir.