Fara í efni

Varað við einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar!

Einn merkasti fræðimaður samtímans á sviði heilbrigðismála, sænski prófessorinn Göran Dahlgren, hélt fyrirlestur í vikunni um kerfisbreytingar í heilbrigðismálum og framtíðarsýn á því sviði. Göran Dahlgren var stjórnandi í sænska heilbrigðismálaráðuneytinu og hefur verið ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar en einnig ríkisstjórna í þróunarríkjum í Asíu og Afríku. Hann hlaut norrænu Lýðheilsuverðlaunin árið 2003 fyrir afburðaþekkingu, efnistök og nýja sýn á viðfangsefnið. Dahlgren varar mjög eindregið við markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins og varar einnig við gjaldtöku úr vasa sjúklinga en hún muni leiða til aukinna byrða á þá sem síst skyldi.Gjaldtaka muni með öðrum orðum ekki draga úr kostnaði við heilbrigðiskerfið heldur hafa það í för með sér að í stað þess að heilbrigðir vinnandi skattgreiðendur borgi fyrir sameiginlegt heilbrigðiskerfi allra verði það þeir sem standa höllum fæti sem greiði hlutfallslega meira til kerfisins. Það hafi sýnt sig að kostnaðurinn bitni þyngst á börnum, öldruðum og konum og hinum tekjulágu í þjóðfélagi. Þeir hafi síst efni á að borga og séu auk þess líklegri til að búa við heilsuleysi en tekjuháir hópar. Dahlgren segir að ef málin væru sett fram með þessum hætti í stað þess að kynna kerfisbreytingar af þessu tagi sem sparnað í heilbrigðiskerfinu, myndi þjóðfélagið aldrei samþykkja þær. Fólk sæi þá einfaldlega það óréttlæti sem í þessum breytningum er falið. Það hlýtur því að vera mikilvægt að  umræðan um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfins sé opin og heiðarleg og að menn segi hvað raunverulega fyrir þeim vaki. Þegar búið sé að einkavæða sé erfitt að snúa til baka. Einnig þess vegna sé örlagaríkt að vönduð umræða fari fram áður en ákvarðanir í þessa átt er teknar.

Dahlgren er hér á landi í boði BSRB og er vísað til fréttar um fyrirlesturinn á heimasíðu samtakanna.