Fara í efni

HVERNIG VÆRI AÐ GLUGGA Í DAHLGREN?

Landspítali - Háskólasjúkrahús var á fyrstu sex mánuðum ársins rekinn með "methalla" er okkur sagt í sérstakri tilkynningu frá samtökum atvinnurekenda. Á vefsíðu SA er jafnframt minnt á tillögur atvinnurekenda um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar og varað við því "að heilbrigðisútgjöld á Íslandi muni sprengja öll alþjóðleg kostnaðarviðmið að óbreyttu." SA blæs á varnaðarorð stjórnenda sjúkrahússins um að skera þurfi niður ef ekki komi til aukin fjárframlög til spítalans. Þetta finnst atvinnurekendasamtökunum merki um vesaldóm stjórnenda í launamálum: " Þeir stýra…starfsmannamálum og taka allar ákvarðanir um hækkanir á launum..."

Væntanlegir kollegar í samtökum atvinnurekenda?

Að öðru leyti mæra atvinnurekendasamtökin Læknafélag Íslands fyrir að tala tungumál viðskiptalífsins en félagið hvatti nýlega til einkavæðingar. Þar telja SA menn sig eflaust vera að tala við verðandi kollega í atvinnurekstri. En það má Vilhjálmur Egilsson og félagar í SA hins vegar vita, að Læknafélag Íslands er ekki að hvetja til einkavæðingar sjúkrahúsa til að draga úr tekjumöguleikum læknastéttarinnar! Það má hins vegar vel vera að mönnum þyki rétt að skera niður gagnvart einhverjum öðrum.


Dýrara og ranglátara

SA þykist vilja leita hagkvæmustu leiðanna við skipulag og rekstur heilbrigðisþjónustunnar. Ekki er ég mótfallinn því. En þá skulum við líka leita í alvöru. Við skulum kynna okkur reynslu annarra af einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.
Hvernig væri til dæmis að byrja að lesa bækling eftir Göran Dahlgren, einn fremsta sérfræðing á Norðurlöndum á þessu sviði, en hann hefur gagngert rannsakað kerfisbreytingar í heilbrigðiskerfinu með tilliti til þjónustu og kostnaðar. Niðurstaða Görans Dahlgrens er sú að einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar hafi, þegar á heildina er litið, gert þjónustuna dýrari auk þess sem félagslegt misrétti hafi aukist. Viljum við það?
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins – sá sem í vikunni skrifaði leiðara um þetta efni undir yfirskriftinni, Einkarekinn valkostur, mætti einnig gjarnan glugga í bækling Görans Dahlgrens.

Var búist við gróða?

En á meðal annarra orða, hvers vegna skyldi LHS hafa verið rekinn með halla? Var búist gróða? Skyldi hallinn stafa af óraunsæju fjárveitingavaldi? Eða kannski raunsæju fjárveitingavaldi - pólitíkusum sem vilja setja sjúkrahúsið í vanda svo frelsandi englar á borð við Læknafélag Íslands eða Samtök atvinnulífsins geti komið með þá lausn sem allt á að leysa: Einkavæðing.
HÉR má komast í bækling Görans Dahlgrens.