Fara í efni

VILLIMENNIRNIR Í PARADÍS

Abdulrazak Gurnah heitir afríski rithöfundurinn sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2021. Í greinargerð verðlaunanefndarinnar segir að Gurnah hafi fjallað um nýlendustefnu Evrópumanna “af skarpskyggni og óvægnum skilningi”, um áhrfin af þessari stefnu svo og örlög flóttafólks í þeirri gjá sem ríkir milli menningarheima og heimsálfa.

Þetta fáum við að vita í eins konar eftirmála Angústúruútgáfunnar á frægri bók Abdulrazak Gurnah, Paradís.

Mér þykir það góður siður sem tíðkast hjá Angústúru að fá kunnáttufólk, stundum þýðendur bókanna til að skrifa slíka eftirmála. Það gerir þýðandinn, Helga Soffía Einarsdóttir í þessu tilviki og gefur lesendum mikilvægar vísanir í eftirmála sínum sem dýpka skilning okkar á bókinni. Það er augljóst að þýðandinn hefur mikla þekkingu og djúpan skilning á þeim menningarheimi sem bókin lýsir og er það mikill kostur. Ég staldraði hins vegar við hve djörf hún var að setja hefðbundin eintöluorð í fleirtölu, margar menningar, margar baráttur og þá fannst mér óvenjulegt að birta gæti orðið þéttari eins og gerðist á blaðsíðu 174. … Þetta er náttúrlega alger aukaatriði með hliðsjón af snilldartöktum Helgu Soffíu við þýðinguna á köflum.

Ekki ætla ég að rekja efni bókarinnar sem í mínum huga var nánast spennusaga þar sem lesandanum leið ekki alltaf vel. Að einhverju leyti var það fegurð söguhetjunnar, drengs sem seldur hafði verið í ánauð, sem gerði þennan lesanda órólegan því í grimmu og ágjörnu umhverfi getur hið viðkvæma og fagra svo hæglega orðið ljótleikanum að bráð.

Við kynnumst stéttaskiptingu og kúgun í Austur-Afríku, þar sem nú heitir Tansanía, sögusviði bókarinnar, í aðdraganda og við upphaf nýlendutímans á þessum slóðum. Það voru Þjóðverjar sem eignuðu sér þennan hluta Afríku á síðustu áratugum nítjándu aldar og héldu þar yfirráðum til loka heimsstyrjaldarinnar fyrri. Þá tóku Bretar við ránsfengnum og héldu honum fram á sjöunda áratug síðustu aldar en árið 1961 öðlaðist Tansanía, áður Tanganyaka, sjálfstæði.

Áður hafði Oman heimsveldið ríkt á þessum slóðum og er það mikil saga. En sennilega er það sammerkt með því heimsveldi og veldi tyrknesku Ottómananna sem lengi vel réð öllu vestur með Afríkuströnd Miðjarðarhafsins, upp eftir Balkanskaganum og langt austur í Asíu, að mismunadi menning fékk þrifist nokkuð óáreitt svo lengi sem soldánarnir fengu sína skatta og fólk í herinn þegar kallað var. Ólíkir menningarheimar fengu hins vegar haldið sínu í ríkari mæli en gerðist undir evrópskri stjórn þótt um það sé ekki hægt að alhæfa að öllu leyti.

Í Paradís kynnumst við þrælahaldi sem lengi hafði tíðkast, ofbeldi, fordómum en einnig mildari þáttum í mannskepnunni. Ég óttaðist hina grimmu mannskepnu alveg fram í bókarlok og ætla ekki að upplýsa um lokin, þau verða lesendur sjálfir að nálgast, en mér þóttu þau vera dramatísk og skilja margt eftir til umhugsunar.

En hafi þrælahaldararnir á láglendi Tansaníu verið harðdrægir fyrir eigin hag og hinir ómenntuðu fjallabúar til alls vísir einnig, þá jafnaðist enginn á við hvíta manninn í grimmd og skefjalausu ofbeldi. Því nú skyldi samfélagið allt gjöra svo vel að hlýða, sýna takmarkalausa undirgefni og leggja allt sitt af mörkum við “verðmætasköpun” hinna nýju herra, annars beið gálginn eða byssukjaftur.

Í bókinni skynjum við yfirgang og ofbeldi hvíta mannsins. Það verður þeim mun sýnilegra þegar við höfum áður fylgst með því hvernig þjóðflokkar þar sem grimmdin hafði verið ríkjandi, gefast upp fyrir ofbeldi hvíta mannsins.

Styrkur bókarinnar er einmitt sá að veita okkur innsýn í báða heima, það sem áður var og það sem varð eftir komu hvíta mannsins. Oft nægja fáar setningar til að fá skynjað hlutskipti hinna undirokuðu.

Leiðangurstjóranum í verslunarleiðangri strandamanna upp í fjöllin er lýst á þann veg að hann hafi valdið ugg í brjóstum leiðangursmanna:
“Yggldur og grimmur svipurinn og óvægið blikið í augum hans lofaði engu nema þjáningum handa þeim sem lentu upp á kant við hann. Einföldustu og hversdagslegustu hreyfingar hans voru framkvæmdar af vitneskju um og ánægju með að búa yfir þessu valdi. Hann var hávaxinn og sterkbyggður og stikaði um með þaninn brjóstkassann, tilbúinn í slaginn. Hann var með há kinnbein og svipurinn í bústnu andltinu kraumaði af órólegum hvötum. Hann gekk um með mjótt bambusprik í höndunum sem hann notaði til áhersluauka, sveiflaði því í loftinu þegar þolinmæðin var á þrotum, sló því í latan afturenda þegar fauk í hann. Hann hafði orð á sér að vera miskunnarlaus í sodómíu og oft mátti sjá hann strjúka sér annars hugar um lendarnar. Þeir sem Mohammed Abdalla hafði neitað að ráða héldu því fram að hann veldi burðarmenn sem væru til í að fara niður á fjóra fætur fyrir hann í leiðangrinum. Stundum leit hann á Yusuf (söguhetjuna, hinn unga dreng) með skelfilegt bros á vör …” 

Við lestur bókarinnar minntist ég frétta frá síðasta ári af heimsókn Þýskalandsforseta til Tansaníu. Sá heitir Frank-Walter Steimeier. Í heimsókninni baðst forsetinn afsökunar á framferði Þjóðverja á nýlendutímanum. Í einni ræðunni talaði hann til afkomenda Sonega Mbanoy, foringja í uppreisn gegn þýsku nýlenduherrunum sem fönguðu hann og hengdu svo í gálga og hálshjuggu ásamt 66 samherjum hans. Uppreisnarmennirnir, sem kölluðu sig Maij Maji, höfðu risið upp þegar Þjóðverjar sviptu þá landi sínu og þröngvuðu þeim til að þjóna sér. Maij Maij uppreisnin stóð frá 1905 til 1907 en áður höfðu verið mannskæð átök þegar Þjóðverjar brutu undir sig hvert héraðið á fætur öðru.

Ég fór að leita frekari upplýsinga um framferði Þjóðverja á þessum slóðum fyrir rúmri öld. Í ljós kom að þeir drápu ekki einn og einn uppreisnarmann og ekki nokkra tugi, heldur myrtu þeir þriðjung íbúanna á því svæði þar sem ófriðurinn geisaði, 300 þúsund manns, bæði með vopnum en einnig með því að eyðileggja skipulega landbúnaðarland, spilla vatni í drykkjarbólum og öðru sem gerði það að verkum að fólkið dó í hrönnum. Ég hef lesið að svona hafi Bretar einnig farið að í Suður-Afríku í stríðinu við Búa. En Bretar unnu það stríð og eins og fyrr og síðar er fátt sagt illt um framferði sigurvegara.
Þetta eru hins vegar aðferðir sem flokkast undir þjóðarmorð. Þannig að vissulega var ástæða fyrir forsetann þýska að segja að sér hefði þótt þetta afar leitt. Reyndar er ósanngjarnt að gera lítið úr ræðu hans. Ég las hana frá orði til orðs og þótti mikið til um hana.

En því miður var það sem þarna gerðist annað og miklu meira en að það dugi að biðjast fyrirgefningar gjörða landa sinna forðum daga. Varla getur maður ætlast til þess að vera fyrirgefið nema með breyttri hegðun, auk þess að viðurkenna misgjörðir sínar. Þess vegna er ástæða til að spyrja hvort gömlu nýlenduveldin, sem nú eru nýju nýlenduveldin, þurfi ekki að endurskoða meira en atburði í hundrað ára fortíð. Nýlendustefna nítjándu og tuttugusu aldar byggði á beinum yfirráðum en grunnurinn var arðránið. Það einkenir enn samskipti norðurs og suðurs og er nýlendustefna okkar samtíma. Á henni biðst enginn fyrirgefningar.

Hugarheim og afstöðu nýlenduherranna fangar Abdulrazak Gurnah víða í bók sinni. Alltaf voru aðkomumennirnir að siðvæða og frelsa. Þannig réttlættu þeir gjörðir sínar. Þetta segir meðal annars af leiðangri innfæddra kaupmanna af láglendinu við ströndina upp í fjöllin:

“Hvert sem þeir fóru núna komust þeir að því að Evrópumennirnir höfðu verið þar á undan þeim og komið fyrir hermönnum og embættismönnum sem sögðu fólkinu að þeir væru komnir til að bjarga því frá óvinum þess sem sæktust aðeins eftir því að hneppa þð í ánauð … Kaupmennirnir töluðu um Evrópumennina í forundran, þeir voru agndofa yfir grimmd þeirra og vægðarleysi. Þeir leggja undir sig besta landið, án þess að borga fyrir það, neyða fólk til að vinna fyrir sig … Lyst þeirra er óseðjandi og án sóma … sá sem ekki lætur segjast er fangelsaður eða hýddur eða jafnvel hengdur. Það fyrsta sem þeir byggja er fangelsi, síðan rís kirkja og svo markaðskemma …” 

Og síðar: “Maður þarf að vera fífl til að trúa því að þeir séu hér til að láta nokkuð gott af sér leiða. Þeir eru ekki á höttunum eftir viðskiptum, heldur landinu sjálfu. Og öllu sem því tilheyrir … okkur.” 

“Veistu hvers vegna þeir eru svona sterkir? Vegna þess að þeir hafa hámað í sig heiminn öldum saman … Ég er hræddur, það er rétt hjá þér … en ekki bara við þá. Við eigum eftir að tapa öllu, meðal annars lifnaðarháttum okkar … og unga fólkið á eftir að missa enn meira. Einn daginn fá þeir það til að hrækja á allt sem við þekkjum og fara með lög sín og sögur af heiminum eins og þær séu hið heilaga orð. Þegar þeir skrifa um okkur, hvað heldurðu að þeir segi? Að við höfum gert fólk að þrælum.”

“Við erum þannig innréttaðir að sýni sökudólgurinn iðrun eigum við erfitt með að refsa honum, sérstaklega ef dómurinn er þungur. Fólk kemur og biðst vægðar fyrir hann og við eigum öll ástvini sem syrgja. En meðal Þjóðverjanna er þessu þveröfugt farið. Því þyngri sem refsingin er því óvægnari eru þeir og því harðar standa þeir á sínu. Og hjá þeim er refsingin alltaf þung. Ég held að þeir njóti þess að refsa.” 

Grimmur höfðingi fjallabúa á í viðræðum við foringja þýskra landtökumanna og er túlkur spurður um meira en minna af því sem fram fer á milli þeirra, þar á meðal um sögusagnir um yfirnáttúrulega getu hvíta mannsins:
““ Getur hann étið málm? spurði Chatu. “Hann getur étið það sem honum sýnist,” sagði túlkurinn. En eins og er segir hann að ef þú gerir ekki það sem þér er sagt, þá láti hann þig éta skít.”” 
Þessi ummæli komu upp I huga mér við bókarlok eins og þeir þekkja sem lokið hafa lestri.

Og svo er það skugginn:
“ … Haldið var til suðvesturs að vatninu, þar var land sem kaupmennirnir þekktu vel en sem skuggi Evrópuvaldsins lá þegar yfir” 

Bók Abdulrazak Gurnah dregur upp skýra og áhrifamikla mynd af samfélagi á tímamótum, nýlendustefnunni og þeirri grimmd sem henni fylgdi. Við lesum um ofbeldi, þrældóm og villimennsku á meðal heimamanna en við lestur bókarinnar rennur það smám saman upp fyrir lesandanum hverjir voru hinir raunverulegu villimenn í þeim átökum sem lýst er í Paradís. Það vissi líka Þýskalandsforseti þegar hann samdi áhrifaríka afsökunarræðu sína. Hann vissi hvað átt var við með skugga Evrópuvaldsins.
Napur veruleikinn er svo sá að skuggi nýlenduvaldsins er ekki horfinn. Það vald hefur aðeins tekið á sig breytta mynd.

Ræða Þýskalandsforseta í Tanzaníu um grimmdarverk Þjóðverja á nýlendutímanum: https://www.bundespraesident.de/SharedDocs/Reden/EN/Frank-Walter-Steinmeier/Reden/2023/231101-Songea-Maji-Maji-Museum.html#:~:text=Federal%20President%20Frank%2DWalter%20Steinmeier,victims%20of%20German%20colonial%20rule.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.