Fara í efni

VILJA NOTA ÞÝFIÐ TIL AÐ DREPA RÚSSA

Gömlu evrópsku nýlenduveldin hafa engu gleymt og nýlenduveldi hinna síðari tíma eru engir eftirbátar. Heimsvaldastefna, imperialismi á ensku, er hugtak sem ágætlega lýsir nýlendstefnu bæði fyrr og nú.
Heimsvaldastefna er gagnsætt hugtak og segir það sem segja þarf um þá sem framfylga þessari stefnu því markmið þeirra er einmitt að tryggja yfirráð sín yfir öðrum - öllum öðrum – heiminum öllum.
Fyrr á árum skipuðu sér upp til hópa sósíalistar og vinstri menn almennt, til virkrar andstöðu við heimsvaldastefnu auðvaldsheimsins. Þeir sem stóðu til hægri í stjórnmálum gerðu það sumir hverjir einnig. Það var þá.
Það sem hefur breyst frá því á árum áður er að gagnrýnir óttalausir fjölmiðlar eru færri og hina pólitísku auðreknu sauðkind er víðar að finna í stjórnmálum en áður.

Fyrir þá sem á annað borð vilja sjá, eru dæmi um heimsvaldastefnu auðvaldsheimsins víða að finna.
Frægar að endemum eru vinnuskýrslur unnar fyrir Pentagon og bandarísku leyniþjónustuna, CIA, um hvar eigi að skipta út ríkisstjórnum. Þegar “röng” stjórnvöld voru kjörin til valda í Venesúela, svo eitt dæmi sé tekið af aðgerðum gegn óhlýðnum ríkjum, var í snatri brugðið á það ráð að frysta eignir þess ríkis í Evrópu og Bandaríkjunum. Breski seðlabankinn lék þar stórt hlutverk. Þá skipti eignarréttur allt í einu engu máli.
Eftir að þrengt hafði verið að Venesúela með slíkum aðgerðum og almennum efnahagsþvingunum um skeið fór sultarólin að herðast að íbúum þar í landi. Svona verður ástandið þegar kommúnistar eða sósíalistar komast til valda, endurómuðu fjölmiðlar áróðurinn frá Washington og Brussel. Til þess var leikurinn náttúrlega gerður, að bregða fæti fyrir ríki sem reyndi að verjast gripdeildaröflum kapítalismans, og sýna þar með fram á að óhlýðni gagnvart þeim sem “eiga heiminn” borgi sig ekki.

Þótt ekki takist á kapítalismi og kommúnismi í Úkraínustríðinu er aðferðafræðin svipuð þegar vestrænn hergagnaiðnaður vill hafa sitt fram og koma andstæðingi á hnén; vissulega yfirgangssömum andstæðingi sem fyrir bragðið fær takmarkaða samúð. En aðförin er af sama toga því sá er sviptur ínáanlegum eignum sínum og að honum er þrengt með efnahagslegum og pólitískum þrýstingi.

Auðvitð er þetta annað og skárra en að varpa sprengjum en þegar markmiðið er að stela eignum til að nota andvirði þeirra til að drepa fólkið sem stolið er frá þá ættu að vakna spurningar um hvort fjárfesting í drápstólum á slíkum forsendum kunni ekki jafnframt að vera fjárfesting í framhaldi illinda og haturs.

Dapurlegt er að hugsa til þess að ríkisstjórn Íslands skuli þarna vera í ákafasta klappliði heimsauðvaldsins, eins meðvirk og hugsast getur.
“Við erum framúrskarandi ríki á heimsvísu, í öllum samanburði,” sagði Bjarni utanríkisráðherra í Morgunblaðsgrein 24. febrúar síðastliðinn þar sem hann segir Ísland vera traustan bandamann í Úkraínustríðinu. Í greininni tíundaði hann framlag Íslands til stríðsins í Úkraínu: Íslendingar hefðu varið sex milljörðum til Úrkraínu á undanförnum tveimur árum til viðbótar kostnaði við flóttamenn þaðan og að ríkisstjórnin hefði ákveðið að bæta enn í. Af því sem þegar væri komið taldi hann upp færanlegt (her)sjúkrahús og framlag Íslendinga til “birgðaflutninga”, það er vopnaflutninga, og nefndi hann hve ánægjulegt það hefði verið að sjá árangur af stríðsrekstrinum og tiltók sem dæmi að “fjölda skipa Svartahafsflota Rússa” hefði verið sökkt. Svo kom náttúrlega gleðin yfir fjölgun í NATÓ og áframhaldandi vígvæðingu enda “mikilvægt að Vesturlönd sýni stuðning sinn í verki sem aldrei fyrr.” En greinilegt var að formanni Sjálfstæðisflokksins þótti ekki minnst um vert að í ríkisstjórn og á Alþingi væri um þetta fullkomin samstaða.

Og þarna er VG statt. Það hefði enginn trúað því þegar sá flokkur var stofnaður að hann ætti eftir að velja sér það hlutskipti að styðja vígvæðingu og blása í glóðir ófriðar. Að sú skyldi hafa orðið raunin er ömurlegra en orð fá lýst.

Myndin með pistlinum er af frétt í Heimildinni vikuna 15-21 mars.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.