Fara í efni

HOLL LESNING UM MENNTUN OG FJÁRHÆTTUSPIL

Hinn 14. mars síðastliðinn birtist umhugsunarverð grein í Morgunblaðinu eftir Tryggva Brynjarsson, sagnfræðing og doktorsnema við við Háskóla Íslands, um spilakassa, spilafíkn og siðferði. Höfundi svíður að æðsta menntastofnun landsins skuli ekki hafa til að bera næga siðferðisvitund til að hafna fjáröflun sem byggir á fólki sem haldið er spilafíkn.

 

Grein Tryggva kom mér í hug þegar ég fylgdist með sjónvarpsfréttum um helgina þar sem dómsmálaráðherra boðar nýtt frumvarp sem leiðrétti samkeppnisstöðu !!! þeirra sem berjast um aðstöðu til að níðast á spilafíklum. Rauði krossinn hefur reynst öðrum grimmari í þessari sókn eftir “réttlæti” í fjölmiðlum að undanförnu en aðrir eru þó skammt undan, Landsbjörg og íþróttahreyfingin sem vill “setja spennu í leikinn” og fá þannig unga sem aldna til að tengja íþróttir veðmálum.

Eftirfarandi er grein Tryggva Brynjarssonar:

“Skólar eru sterkustu vígi samfélagsins til að byggja upp siðferðisvitund og siðferðisþrek einstaklinga. Þeir eiga að vera til fyrirmyndar og hafa mannbætandi áhrif á nemendur sína. Nokkurn veginn þannig hljómaði upplegg hins unga hugsjónamanns Helga Hóseassonar þegar hann hóf andóf sitt gegn því að kennararnir hans við Iðnskólann á Akureyri væru síreykjandi innan veggja skólans. Árið var 1942 og engin afsökun lengur fyrir því að halda að neysla tóbaks (sem og áfengis) væri skaðlaus. Helgi gat þannig hamrað á þeirri „vísindalegu staðreynd … að eiturlyf hafa skemmandi áhrif á líkama og sálarlíf manna“. Alvarlegast við ástandið fannst honum þó vera hvernig brestir kennaranna breiddust út, að því er virtist, meðal nemendanna. Unga fólkið sýndi eitrinu víst meiri áhuga en bindindisfélagi skólans. Minnti þetta Helga á máltæki úr sögunni um Bakkabræður: Ekki er kyn þótt keraldið leki.

Ekki þykist ég vita hvernig hegðun og norm breiðast út. Hitt er mér þó alveg jafn ljóst og Helga að siðferði þeirra sem við lítum upp til hefur áhrif á okkar eigið siðferði og oft finnum við fyrirmyndir í skólunum sem við göngum í. Eftirfarandi spurning úr okkar samtíma hlýtur því að teljast sanngjörn og eðlileg: Hvað verður um siðferðisvitund nemanda sem gengur í skóla sem markvisst hrifsar til sín gríðarlega fjármuni af fólki í mikilli neyð? Við þessari hrikalegu spurningu hefur Háskóli Íslands sett fram ótal hugsanleg svör undanfarin ár með illa ígrundaðri tilraun á sínum eigin nemendum, tilraun sem engan endi ætlar að taka. Ég er auðvitað að tala um rányrkjuna sem fer fram í gegnum spilakassa hins svokallaða „Happdrættis“ Háskóla Íslands.

Spilakassar þessir eru hannaðir til að vera sérstaklega ávanabindandi, ekki ósvipað því hvernig samfélagsmiðlar eða tölvuleikir geta verið ávanabindandi. Að baki hönnuninni liggur útpæld taktík og taugavísindi sem verða þróaðri með hverju árinu. Það er hins vegar markmið spilakassanna sem gerir þá frábrugðna hverri annarri ávanabindandi tækni samtímans. Markmiðið er að hagnýta sér fíkn notendanna – sem sagt ófrelsi þeirra – til að hafa af þeim sem mest fé með sem minnstum tilkostnaði fyrir eigendur kassanna. Það er erfitt að sjá að forstjóri HHÍ skilji þetta miðað við nýleg ummæli hennar (Vísir, 19. febrúar) um þörfina fyrir að þrjátíu nýir kassar verði keyptir til landsins. Ef vilji er raunverulega til að takmarka tjónið af kössunum verður nefnilega að breyta grundvallarmarkmiði þeirra. Slíkt myndi hins vegar óhjákvæmilega hafa þær afleiðingar að botninn dytti um leið úr rekstrinum. Það sem forstjórinn boðar nú virðist því miður vera einhvers konar sýndarskaðaminnkun – fúsk til að halda áfram að fylla sjóðinn.

Stjórnendur Iðnskólans á Akureyri tóku skammarlestri Helga Hóseassonar ekki vel á sínum tíma. Í handskrifaðri fundargerð skólastjórans, sem varðveitt er á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, má lesa að „pilturinn [virðist] haldinn þeim fáránlega hugsunarhætti að nemandi í skóla geti tekið fram fyrir hendur skólastjórnar“. Fyrir að gera tilkall til að hafa áhrif á skólaumhverfi sitt hlaut Helgi að vera andsetinn. Í kjölfarið voru piltinum raunar settir þeir afarkostir að annaðhvort kyngja stóru orðunum, biðjast fyrirgefningar fyrir gagnrýni sína, eða honum yrði vikið úr skólanum. Eins og Helgi sá stöðuna stóð valið á milli þess að líða fjártjón – hafandi greitt skólagjöld og haldið sér uppi heilan vetur fyrir norðan, kostnaður sem færi nú í vaskinn – eða líða „siðferðislegt tjón“. Þar sem „enginn heiðarlegur maður mundi nokkru sinni biðja fyrirgefningu á því, sem hann ekki fyndi sig sekan um“, útskýrði Helgi, valdi hann fjártjónið. Svo flutti hann til Reykjavíkur og endurtók sama nám þar.

Háskóli Íslands stendur frammi fyrir sambærilegu vali og Helgi gerði árið 1942. Skólinn getur leitast við að verða heilsteyptari siðferðislega, eða hann getur haldið áfram að setja í forgang að sölsa undir sig meiri steypu í bókstaflegum skilningi. Seinni kostinum gætu þó fylgt óvænt og ótilætluð áhrif. Ekki væri þannig að undra þó að út úr háskólanum kæmu embættismenn og dómarar sem afgreiddu pantaðar niðurstöður, fræðimenn sem kysu að hundsa eða smætta raddir fólks sem verður fyrir stofnanabundnu ofbeldi, fjölmiðlamenn sem leyfðu peningaöflum að stjórna sér, og svo framvegis. Gæti þá einhver ungur hugsjónamaður rifjað upp máltækið að ekki sé kyn þótt keraldið leki, enda var aldrei heilan grunn að fá hjá þjóðarháskólanum.”

Kærar þakkir fyrir þessa hugvekju Tryggvi!

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.