Fara í efni

FJÖLMIÐLAR Í SKUGGA STRÍÐS

Laugardaginn 24. febrúar sótti ég áhugaverða ráðstefnu í Osló sem hafði yfirskriftina Fjölmiðlun í skugga stríðs. Friðar- og mannréttindahreyfingar stóðu að ráðstefnunni en hitinn og þunginn hvíldi á John Y. Jones, en hann er Norðmaður þrátt fyrir nafnið. Hann á sér langa sögu sem málsvari mannréttinda ekki aðeins í Noregi heldur víðs vegar um heim. Sannkallaður eldhugi, magnaður maður.


A þessum fundi komu fram - flestir af holdi og blóði, voru með öðrum orðum á staðnum, aðrir í fjarbúnaði - fjöldinn allur af fyrirlesurum sem fjölluðu um fjölmiðlun í samtímanum. Þetta gerðu þeir út frá mismunandi sjónarhornum.
Sjálfur hélt ég tölu um “gleymdu stríðin” og tók þar sem dæmi nær daglegar árásir tyrkneska hersins á svæði Kúrda í landamærahéruðum Tyrklands og Sýrlands annars vegar og Tyrklands og Íraks hins vegar svo og eyðileggingarstríðið í suð-austurhluta Tyrklands, einnig á hendur Kúrdum, á árunum 2015 og 2016. Ég fór sérstaklega yfir aðgerðaleysi hins alþjóðlega stofnanakerfis.

Mikið var fjallað um Gaza og var þar mættur í fjarfundabúnaði rithöfundurinn, kvikmyndagerðarmaðurinn og aktívistinn Haim Bresheeth. Hann er gyðingur en jafnframt einarður andstæðingur Zíonisma. Um þetta efni fjallaði einnig palestínski læknirinn og rithöfundurinn Ghada Karmi. Þess má geta að hún skrifaði inngang í bók Hjálmtýs Heiðdal, Íslandsstræti.

Fræðimenn komu ýmsir fram, þar á meðal Mads Andenæs, prófessor og þekktur mannréttindalögfræðingur, Deepa Govindarajan Driver, fræðimaður og málsmetandi þátttakandi í umræðum um mannréttindamál, hefur fylgst skipulega með réttarhöldunum yfir Julian Assange í London, maðal annars á vegum The Haldane socialist society of lawyers. Ola Tulander flutti einnig tölu en hann hefur skrifað fjölda bóka og fjallað mikið um lygafréttir á meðal annars um Líbíu en einnig skrifaði hann um lygafréttir sem tengdust æsifréttum um Rússa í sænksa skerjagarðinum á níunda áratug síðustu aldar.

Norski læknirirn Mads Gilbert sem starfað hefur mikið á Gaza talaði í fjarfundabúnaði frá Tyrklandi þar sem hann var á ráðstefnu sem helguð var morðæðinu á Gaza.

Craig Murrey, fyrrum sendiherra Breta og jafnframt uppljóstrari um glæpi Bandaríkjamanna í svartholsfangelsum í Uzbekistan þar sem hann var sendiherra, var á ráðstefnunni og flutti magnað, fræðandi og skemmtilegt erindi. Hann hefur fylgst náið með framgangi á málaferlunum sem tengjast kröfu Bandaríkjastjórnar um framsal á Julian Assange til Bandaríkjanna.

Norski prófessorinn og fræðimaðurinn Glenn Diesen fjallaði um rannsóknir sínar í samtímasögu, meðal annars um Úkraínu og það sem þar væri satt og logið. Hann ræddi einnig í fjarbúnaði við bandarískan fyrrum lisforingja Douglas MacGregor um Gaza og Úkraínu. Sá yrði seint sakaður um vinstrimennsku eða andúð á Bandaríkjunum en um bæði Gaza og Úkraínu var hann ómyrkur í máli um lygaspunann frá Washington.

Marielle Leraand ávarpaði fundinn í upphafi en hún er annar tveggja formanna nýrrar stjórnmálahreyfingar, Friður og réttlæti, og hefur hún verið gagnrýnin á þau öfl sem kynda undir áframhaldandi ófriði í Úkraínu svo og freklegum afskiptum Bandaríkjanna og hjálparkokka af innanríkismálum í Pakistan og víðar. Hreyfing hennar átti aðild að ráðstefnunni.

Þá má ekki gleyma Jeffrey Sachs, bandaríska þjóðfélagsrýninum. Hann birtist okkur um fjarfundabúnað í upphafi ráðstefnunnar frá Addis Ababa í Eþíópíu. Hann ræddi um Gaza, Úkraínu, handónýta fjölmiðla, Wikileaks og Assange og margt fleira á sinn magnaða hátt. Ég fékk það hlutverk að halda utan um þennan þátt á þessari stórskemmtilegu upplýsandi ráðstefnu.

Þegar ég fæ slóðina á fundinn mun ég birta hana hér: 


Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.