Fara í efni

KLÁMHÖGG

Sæll Ögmundur.
Þakka þér fyrir að vekja athygli á grein Páls Magnússonar, útvarpsstjóra. Hana þyrftu fleiri að sjá en þeir sem lesa Morgunblaðið. Hann ræðst þar með óvenjulegum hætti að Þorsteini Pálssyni, ritstjóra Fréttablaðsins, með skítkasti og klámhöggum, sem að réttu ættu að verða enn ein ástæðan til þess að drengurinn sá kæmi ekki til greina sem stjórnandi ríkisútvarpsins. Skítkastið á Þorstein Pálsson er afhjúpandi fyrir útvarpsstjórann. Blaða- og fréttamenn sem hafa starfað með útvarpsstjóranum hljóta að brosa í kampinn og rifja upp hvernig honum tókst jafnan að tryggja eigin stöðu hjá Íslenska útvarpsfélaginu burtséð frá því hvort það var kolkrabbinn sem tók yfir félagið, Jón Ólafsson, eða Baugur. Einu frávikin frá þessu er sjónvarpsstjóratíðin á Sýn á Suðurlandsbrautinni hjá Sigurði G. Guðjónssyni og ritstjóratíminn á Morgunpóstinum í Kópavoginum. Blaða- og fréttamenn 365 miðla hljóta líka að taka til varna og vísa til heimahaganna ásökun um að ganga erinda eigendanna. Merkilegt að yfirmenn NFS, Stöðvar 2, DV og Fréttablaðsins skuli ekki þegar hafa látið heyra frá sér. Orðhvatur gamall félagi útvarpsstjóra sem nú ritstýrir DV gæti til dæmis látið heyra frá sér. Prinsippmálin eru honum hjartfólgin hefur mátt skilja á leiðurum hans. Fréttamönnum og starfsmönnum ríkisútvarpsins hlýtur líka að vera brugðið. Eða eru menn sáttir við trakteringarnar? Eða líta menn kannski á grein útvarpsstjóra sem vísbendingu um að hann hafi sjálfur gengið erinda þeirra mörgu eigenda sem hann hefur þjónað undir? Í ljósi digurbarkalegra yfirlýsinga útvarpsstjóra um annan ritstjóra Fréttablaðsins sem til dæmis almennir sjálfstæðismenn vita að má ekki vamm sitt vita hlýtur menntamálaráðherrann að fara að átta sig á að ekki er nóg að þrítryggja þrjá leiki á þrettán raða seðli til að vinna og þótt velþóknun Morgunblaðsins sé bætt á seðilinn dugar það ekki til að tryggja vinning. Ótrúlegt að jafn reyndur stjórnmálamaður og Geir H. Haarde skuli ekki sjá í hvaða óefni varaformaðurinn er að stefna honum. Þrjár spurningar að lokum Ögmundur.
Styður þú hlutafélagið ríkisútvarp sem skammtað er nefskatti úr ríkissjóði og aðgangi að auglýsingafé fyrirtækja og stofnana í þjóðfélaginu?
Af hverju getur þú, eða flokkur þinn, ekki heitið kjósendum þínum að breyta væntanlegum lögum daginn sem þið komist til valda?
Af hverju beitir þú þér ekki fyrir því að stjórnarandstöðuflokkarnir gefi yfirlýsingu um að þessum væntanlega lagabastarði verði breytt um leið og framsókn fer úr ríkisstjórn?
Kv.
Stefán

Sæll Stefán og þakka þér bréfið. Ég skal svara þremur spurningum þínum skorinort.
Í fyrsta lagi, nei, ég styð ekki nefskatt til hlutafélagavædds Ríkisútvarps.
Í öðru lagi mun ég beita mér fyrir því að VG heiti því að vinna að því að undið verði ofan af hlutafélagavæðingu RÚV.
Í þriðja lagi mun ég kanna hvort hljómgrunnur sé fyrir sams konar yfirlýsingu frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum.
Kveðja,
Ögmundur