Fara í efni

HVERS VEGNA EKKI BALI?

Sæll Ögmundur.
Hvað finnst þér um fundaflandur þingmanna eins og fram hefur komið í fréttum. Fram hefur komið í fréttum að framkvæmdastjórn EFTA, sem eru Evrópusamtök, er þessa dagana á fundum í útlöndum og hvaða staðir skyldu hafa verið valdir til fundahaldanna aðrir en Buenos Aires í Argentínu og Brasilía, höfuðborg samnefnds ríkis, auk Río de Janeiro einnig í Brasilíu. Mín spurning er ekki sú hvers vegna þessar suður-amerísku borgir hafi orðið fyrir valinu  fyrir EFTA fólkið  heldur hitt hvers vegna þau völdu ekki Bali sem ég hefði haldið að væri meira spennandi. Kanntu skýringu á þessu Ögmundur, aðra en að þetta flokkist undir spillingu? Síðan máttu líka segja mér hvort þú teljir þessar ferðir réttlætanlegar. Mér finnst það ekki, enda er það ég sem borga brúsann ásamt öðrum skattborgurum.
Lárus

Sæll Lárus og þakka þér fyrir bréfið. Alla tíð hef ég verið hlynntur alþjóðlegu samstarfi, bæði gengist fyrir því að fá erlenda fyrirlesara til landsins og flytja þannig inn þekkingu, en einnig hef ég viljað stuðla að því að fólk sækti fundi til að fá uppörvun og fræðslu (þessu gerðum við mikið af hjá BSRB) og síðast en ekki síst, að taka þátt í stefnumörkun í útlandinu ef því var að skipta. Þarna hafa fjarfundir komið til sögunnr í seinni tíð og ákjósanlegt þykir mér að blanda saman ferðum og fjarfundum. Þar með má losna við mikinn kostnað.
En margt er skrýtið í kýrhausnum og ekki allt skijanlegt í þeim haus. Þannig kann ég ekki að skýra þessar ferðir EFTA þingmanna til Suður-Ameríku. Kannski hefði ferð til Bali verið jafn góð eins og þú nefnir. Kannski hefði mátt taka fjarfund við Buenos Aeires frá Bali. Eða láta sér nægja að zoom-funda frá Austurvelli og sleppa tuttugu tíma flugi. En eflaust eru einhverjar skýringar Alþinigs á þessum ferðum sem ég þekki ekki - en eru alveg umræðu virði.
Ögmundur