Fara í efni

VINUR KVADDUR

Helgi Már Minning
Helgi Már Minning


Á þriðjudag var borinn til moldar Helgi Már Arthúrsson. Mikill fjöldi minningargreina birtist um Helga Má  í Morgunblaðinu, þar á meðal eftir undirritaðan. Hér að neðan er að finna grein sem ég skrifaði um þennan góða vin minn en einnig birti ég minningarorð sem Óskar Guðmundsson rithöfundur skrifar á heimasíðu sína ásamt myndinni hér að ofan en hún er af okkur fjórum félögum og er tekin um miðjan níunda áratuginn þegar enn rauk upp af okkur eftir hamaganginn í BSRB verkfallsátökum og eftirmálum þeirra, Sigtúnshreyfingu og margvíslegu pólitísku vafstri. Þarna sitjum við Helgi Már, Ævar Kjartansson, útvarpsmaður og síðan Óskar, sem á þessum árum mundaði fjörugan penna sinn á ritjórnarskrifstofum Þjóðviljans.  Óhætt er að segja að menn hafi verið vígreifir mjög.
Síðan birti ég mína eigin minningargrein og þá slóðina á frábæra útfararræðu séra Arnar Bárðar Jónssonar sem jarðsöng Helga Má í Neskirkju í Reykjavík.

Óskar Guðmundsson:
Í gær kvöddum við gamlan vin, skólabróður og samstarfsmann, Helga Má Arthúrsson.
Hann var um margt merkur maður og hans verður sárt saknað. Ég man eftir honum þar
 sem við unglingar höfðum fengið listamanninn Dag Sigurðarson í heimsókn norður á Akureyri til að flytja okkur ljóð einsog Majakovskí forðum. Þá þegar hafði Helgi kynnt sér ljóðaþýðingar Dags og gat haft orð fyrir okkur og pantað Neruda og aðrar nýjungar  frá skáldinu.
Seinna var Helgi Már starfandi á ólgandi blað-Síðumúla uppúr 1980 með Vilmundi og Garðari Sverris á Alþýðublaði og Nýju Landi -  . Þá höfðu menn fingurgóma á hræringum sem við héldum sumir að væru ígildi þjóðfélagsbyltingar.  Þetta var öðrum þræði poetísk lífsafstaða fremur en hún væri steypt í mót flokksviðja. Þó átti pólitíkin hug og hjarta.
 Helgi Már var mjúkur sósíaldemókrat  með lýriska anarkótendensa en umfram annað velviljaður og góður drengur, maður samhygðar - samstöðu.
Mig minnir að meðfylgjandi mynd hafi verið tekin uppúr ólgutímum hins sögufræga BSRB verkfalls 1984 sem tímatalið var nú lengi miðað við. Kannski eitthvað síðar. Helgi Már Arthúrsson, Ögmundur Jónasson, Ævar Kjartansson og Óskar Guðmundsson.



Minningargrein Ögmundar Jónassonar:
Helgi Már Arth. Minning 2Vinátta okkar Helga Más á sér langa sögu. Lengi vel þekkti ég hann úr fjarlægð, en þó nálægð, því sem blaðapenninn, sem birtist manni á eldhúsborðinu á morgnana, skar hann sig snemma úr fyrir ritsnilli og afburða greiningarhæfileika.
Í alvöru kynntumst við Helgi Már þó ekki fyrr en á vettvangi BSRB upp úr 1980. Þá hafði hann verið ráðinn upplýsingafulltrúi bandalagsins og ritstjóri, þar á meðal BSRB tíðinda, en ég var þá formaður eins aðildarfélaganna, Starfsmannafélags Sjónvarpsins.
Í verkfallinu 1984 munstraði Helgi Már mig sem blaðamann á BSRB tíðindum. Hin fámenna ritstjórn vann jafnan fram undir morgun en þá tók við póstburðarfólkið - sem var í verkfalli -  og dreifði  nýjasta tölublaðinu. Fyrst var dreift í Stjórnarráðinu og á Alþingi og síðan inn á hvert heimili. Helgi Már stýrði hjartslættinum í þessu kröftugasta verkfalli síðari tíma. Í upphafi verkfalls voru prentarar einnig í verkfalli þannig að BSRB tíðindin voru ein um hituna, ráðamönnum til lítillar skemmtunar.
Í aðdraganda verkfallsins hafði Helgi Már lagt á ráðin um kynningarstarf, þ.á.m. svo áhrifaríkar auglýsingar í Sjónvarpi, að Útvarpsráð bannaði þær. Þó sögðu þessar auglýsingar ekki annað en hvað einstaklingar sem sýndir voru á mynd, hefðu í mánaðarlaun. En umgjörðin var slík að hún hreif.
Það hreif reyndar allt sem Helgi Már kom nálægt. Aldrei var þó æsingi fyrir að fara. Alltaf hægð og rökfesta. Enga þörf hafði hann að trana sjálfum sér fram þótt ærin væru tilefnin til þess. Ég þykist vita að ég er ekki einn um að hafa notið góðra ráða hans.
Helgi Már var um dagana blaðamaður, ritstjóri, um alllangt skeið fréttamaður sjónvarpsstöðvanna beggja og síðar gerðist hann upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytisins. Þar hittumst við aftur á samstarfsvettvangi, enn og aftur afburðamaður. Það kemur upp í hugann hve vel hann reyndist öllum þeim sem hann starfaði með. Mér er það minnisstætt hve umtalsgóður hann var um forvera mína í embætti og er ég sannfærður um að þeir bera honum þá sögu að hann hafi reynst þeim hollráður. Þannig var Helgi Már, hann var sáttur ef hann taldi sig vera að láta gott af sér leiða.
Ég heimsótti Helga Má á spítalann rétt áður en hann dó. Þá var ljóst hvert stefndi. Hann  mátti litt mæla. En hann brosti þegar ég rifjaði upp gamla daga þegar hann skrifaði  sínar mögnuðu ritsmíðar  og hvernig hann hefði getað með einu pennastriki, nánast smáorði á réttum stað, breytt heilum texta hjá öðrum  og hafið hann til flugs. Svona geta bara listamenn.
En fyrst og fremst minnist ég hans sem vinar, sem að hætti Illuga í Grettissögu bregður skildinum yfir  bróður sinn þegar að honum er sótt.
Þannig maður var Helgi Már. Það fékk ég að reyna.
Við Valgerður sendum Sigríði, börnum og móður Helga Más og fjölskyldu hans allri djúpar samúðarkveðjur.

Útfararræða séra Arnar Bárðar Jónssonar: http://ornbardur.com/2013/07/02/helgi-mar-arthursson-1951-2013/