Fara í efni

VANHÆFUR Á VALDASTÓLI

Dónald Trump 2
Dónald Trump 2

Donald Trump er verðandi forseti Bandaríkjanna.

Það eru slæm tíðindi og vitnisburður um mikla lágkúru.
Af viðbrögðum að dæma um heim allan sjá þetta margir.
Donald Trump er ekki bara lágkúrulegur stjórnmálamaður, heldur er lágkúra hans flestu fólki augljós.
Donlad Trump er nefnilega fullkomlega gagnsær, alveg glær.

En þetta er ekki sú nýlunda sem margir vilja vera láta. Eða er Bush yngri og samstarfsmennirnir, Rumsfeld og fleiri, nokkuð liðnir úr minni? Allt misindismenn sem einskis svifust til að ná sínu fram.

Kannski er sú kenning rétt að Donald Trump hafi unnið vegna þess að meintir gáfumenn hafi sagt hann vera fordómafullan og illgjarnan. Og þar á ofan fífl. Undan því hafi mest sviðið. Kjósendur sem hafi talið sig eiga samleið með honum í skoðunum að einhverju eða öllu leyti, hafi tekið slíkri gagnrýni sem árás á sig og látið þykkjuna síðan ráða í lokuðum kjörklefanum.
En engum sagt frá.
Að sjálfsögðu ekki.
Maður segir ekki upphátt að maður styðji fífl.
Maður gæti þá hæglega verið álitinn fífl sjálfur.
En einmitt  þess vegna hafi allar skoðanakannanir gefið ranga mynd.  

Hillary Clinton er ekki fífl. En hún er ekki eftirsóknarverður leiðtogi heimsins. Reyndar stórhættuleg að mínu mati, sbr. yfirlýsingar hennar um Íran og Mið-Austurlönd, auk þess að vera á bandi bandarískrar fjármálaspillingar.
Þetta var mat margra sem hvorki vildu Donald né Hillary.  

Synd að Bernie Sanders náði ekki áfram. Hef trú á því að hann hefði borið sigur úr býtum.

Nú reynir á Bandaríkjaþing. Hversu mikið aðhald þingið kemur til með að veita vanhæfum og varhugaverðum forseta. 

En sannast sagna þá fæ ég mig ekki til að fella mörg tár vegna þessara úrslita. Ekkert frekar en yfir svo mörgu sem komið hefur frá Hvíta Húsinu á undanförnum árum... hernaðarofbeldinu, vopnasölunni, fangabúðunum, auðlindastuldinum, drónunum, misréttinu,  ...

Það er helst að ég vorkenni Bandaríkjamönnum fyrir að vera staddir þar sem þeir eru. Ég vorkenni þeim að sjálfsögðu mest sem ekki kusu Trump og eru nú miður sín.
En ég vorkenni einnig þeim hluta þjóðarinnar sem kaus þennan mann yfir sig sem forseta lands síns. Þar með kváðu þeir yfir sjálfum sér þungan áfellisdóm.   

Vonandi þurfum við ekki að vorkenna heiminum öllum.

Samt óttast ég það.