Fara í efni

ÞARF AÐ GERA HÚSLEIT HJÁ SAMKEPPNISSTOFNUN?


Þegar Samkeppnisstofnun heimtaði gögn frá Bændasamtökum til rannsóknar svo ganga mætti úr skugga um hvort rétt gæti verið að samtök bænda störfuðu í þágu félagsmanna sinna, þá kom upp sú kenning að einhver hjá stofnuninni kynni að hafa dottið á höfuðið, aðrir flettu upp í dagatali til að sjá hvort þetta gæti verið 1. apríl gabb. Óvenju vel heppnað.  Hvorugt reyndist rétt. Fóru menn þá að rifja upp framlag þessarar stofnunar til Íslandssögunnar síðustu árin.  

Varðhundur frjálshyggjunnar

Staðreyndin er sú að Samkeppnisstofnun hefur reynst  einhver dyggasti varðhundur frjálshyggjunnar sem hugsast getur. Það fer ekki framhjá neinum hve mjög stofnunin hefur beint spjótum sínum að hinu opinbera. Ekkert virðist mega gera á samfélagslegum forsendum lengur án þess að það komi til rannsóknar hjá Samkeppnisstofnun. Ef minnsti grunur leikur á að það stríði gegn viðskiptahagsmunum einhverra á markaði  þá hefur Samkeppnisstofnun verið að mæta. Blásið hefur verið til sóknar með miklu brambolti, jafnvel  húsleit  og ekki linnt látum fyrr en samfélagið hefur látið undan.

Einkafjárfestar mega eiga allt en almannaveitan 3%!

Þrátt fyrir alla þessa sögu rak mig í rogastans þegar Samkeppnisstofnun kvað upp úr með það nýlega að Orkuveita Reykjavíkur mætti ekki eiga nema 3% hlut í Hitaveitu Suðurnesja, annað væri brot á Samkeppnislögum! Þetta gerist á sama tíma og fjárfestar í Geysir Green eru að kaupa sig inn í Hitaveitu Suðurnesja þvert á vilja stórs hluta landsmanna sem fyrir alla muni vill ekki að einkakapítalið (eins stöðugt og ábyggilegt og það nú er) fái eignarhald í auðlindum þjóðarinnar.  Af því hefur Samkeppnisstofnun engar áhyggjur. Ekkert við það að athuga að Geysir Green eigi 32% í HS og vilji meira. Nei, aðalvandinn virðist vera sá að OR skuli eiga 16,6% hvað þá að veitan vilji kaupa hlut Hafnarfjarðar, sem nemur 15,4%, en sem kunnugt er hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði verið hlynnt því að efla samstarf við Reykvíkinga og þar með nýta samlegðaráhrifin á þessu sviði grunnþjónustu við samfélagið! Nei, samkvæmt Samkeppnisstofnun skal Orkuveita Reykjavíkur aðeins eiga 3% því OR eigi að vera í samkeppni við HS samkvæmt kreddulögmálum sem allir vita að ganga ekki upp.

Munur á almannaþjónustu og einkarekstri í ágóðaskyni

Við þetta er ýmislegt að athuga. Alvarlegast er að hér er verið að reyna að leggja stein í götu samvinnu veitustofnana í almannaeign. Annað er,  að HS hefur með höndum séleyfisverndaða almannaþjónustu sem Samkeppnisstofnun vill  að fari í hendur einkaaðila. Það finnst Samkeppnisstofnun greinilega vera í góðu lagi enda Geysir Green ekki komið með eignarhald í fleiri orkufyrirtækjum - ekki ennþá.  
Samkeppniseftirlitið hefur ekki skilning á þeim grundvallarmun sem er á eðli opinberrar almannaþjónustu og einkareksti í ágóðaskyni. Það sem meira er, stofnunin dregur taum einkakapitalsins.  Samkeppnisstofnun ver sig eflaust með tilvísan í samkeppnslög sem stofnuninni sé gert að starfa samkvæmt. Þessi lög eru meingölluð og vissulega þörf á að að breyta þeim.
Á hitt er þó að líta að Samkeppnisstofnun gæti túlkað lögin mun rýmra en hún gerir og þá með skírskotun í almannahagsmuni.  Fráleitt er annað en að gerður sé skýr greinarmunur á hinu opinbera og almennum rekstri. Innan Evrópusambandsins hefur opinberri þjónustu verið skipt í tvo flokka, SGI (Services of General Interest) og SGEI (Services of General Economic Interest) , þar sem seinni spyrðan er talin falla undir samkeppnislög og önnur lög innri markaðarins en sú fyrri ekki. Um skiptinguna hér á milli hefur verið deilt og hefur verkalýðshreyfingin í Evrópu barist fyrir sérstakri tilskipun um almannaþjónustu sem viðurkenni sérstöðu hennar.

Sampeppnisstofnun dregur taum einkafjármagnsins

Hér uppi á Íslandi  hefur Samkeppnisstofnun tekið afstöðu í þessu stríði um hvar landamærin á milli almannaþjónustu og einkafjármagns eigi að liggja. Telur Samkeppnisstofnun sig eflaust vera að fara að lagabókstaf og jafnvel heilagri ritningu markaðssáttmála Evrópusambandsins. Ef ég tryði því ekki að þetta réði gerðum Samkeppniseftirlitsins þætti mér sú spurning gerast áleitin hvort gera ætti húsleit hjá stofnuninni svo kanna mætti tölvupósta frá peningamönnum sem hagsmuni hafa af því að stofnunin standi sig í stríðinu gegn samfélagsþjónustunni.