Fara í efni

ER AÐFÖRIN AÐ HEILBRIGÐISKERFINU AÐ HEFJAST?


Sjálfstæðisflokkurinn hefur það sem eitt helsta stefnumarkmið sitt á þessu kjörtímabili að koma á einkareknu heilbrigðiskerfi. Mörgum brá því í brún þegar Samfylkingin afhenti Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið. Í ljósi þessa pólitíska ásetnings Sjálfstæðisflokksins verður að skoða allt það sem heilbrigðisráðuneytið tekur sér nú fyrir hendur.
Tvennt er að gerast.
Í fyrsta lagi hefur Pétri H. Blöndal, alþingismanni og sérstökum talsmanni einkavæðingar almannaþjónustunnar, verið falið að endurskipuleggja almannatryggingakerfið. Hann hefur lýst því yfir að hann vilji einfalda það kerfi. Gott og vel. Að því marki sem sú einföldun verður til að minnka álögur á sjúklinga, er það gott. En getur verið að þarna leynist einnig áform um að fara að rukka fólk sem leggst inn á sjúkrahús? Það mun Vinstrihreyfingin grænt framboð ALDREI samþykkja. Hvað með Samfylkinguna? Mun hún reynast föl í þessu sem ýmsu öðru?
Í öðru lagi segir okkur Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, að til standi að koma á einhvers konar bisnisskerfi í heilbrigðisþjónustunni. Allt eigi þar að ganga kaupum og sölum. Innkaupastofnun verði sett á laggirnar. Ósköp meinlaust segir ráðherra. Landspítalinn hafi verið að biðja um þetta. Ekki mikil róttækni í þessu. Við séum bara að gera eins og Svíar. Þetta segir heilbrigðisráðherra á forsíðu Fréttablaðsins í gær.
Vandinn er hins vegar sá að í Svíþjóð, sem ráðherrann vísar til og á að vera einhvers konar réttlæting, hafa menn verið að daðra við markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þetta daður hefur verið harðlega gagnrýnt! Gleymum heldur ekki pólitískum ásetningi heilbrigðisráðherra! Hann berst fyrir einkarekinni heilbrigðisþjónustu þótt hann setji hunang á tunguna svo boðskapurinn verði sem sætastur.
Sitthvað kann vissulega að vera skiljanlegt í óskum Landspítalans. En gera menn sér þar á bæ grein fyrir markmiðum ráðherra? Ætlar Samfylkingin að dansa með? Er kannski allt gefandi fyrir ráðherrastólana? Líka velferðarkerfið?