Fara í efni

“ANNAÐ HVORT ERT ÞÚ KOMMÚNISTI EÐA FÍFL”

Ég var á dögunum að lesa Bítlaávarpið eftir Einar Má. Áður hafði  hann áritað bókina með tilvitnun í frænda sinn Bjössa Spánarfara með orðunum: “Annað hvort ert þú kommúnisti eða fífl”
Ég stóðst ekki mátið, fór í bókaskápinn og las enn einu sinni ávarpið. Viti menn stórir kaflar þess eru enn í fullu gildi, ef horft er fram hjá nýrri tækni.
Dæmi:  “Borgarastéttin getur ekki lifað nema hún gerbreyti framleiðslutækjunum án afláts. Þess vegna breytir hún jafnframt framleiðsluháttunum, og um leið breytir hún öllum högum og háttum mannfélagsins. Það var lífsskilyrði allra iðjustétta fyrri alda, að framleiðsluskipulagið héldist óhaggað. En öld borgarastéttarinnar er mörkuð þrotlausum gerbreytingum á framleiðslu, látlausu róti á öllum þjóðfélagsháttum, eilífu öryggisleysi og umskiptum. Allir gamlir og grónir lífshættir líða undir lok ásamt fornhelgum hugmyndum og lífsskoðunum, sem eru þeirra fylgifé. Allir nýskapaðir lífshættir ganga úr sér áður en þeir verða fullharðnaðir, allar lögstéttir hverfa, öll verandi gengur fyrir ætternisstapa, öllum helgum dómum er spilt, og loks, eiga mennirnir sér ekki annars úrkosti en að hvessa algáð augu á lífsstöðu sína alla og samskipti.”
1847 Kommúnistaávarpið

Kapítalisminn byggir á því að þú getir sparað og ávaxtað þína peninga. Ávöxtunarkröfur eru orðnar svo óheyrilegar að 4,5% vextir+verðbætur eru í dag taldir lágir vextir. Nefna má að 6% vextir, sem standa óhreyfðir á reikningi verðtryggðir, tvöfaldast á 12 árum. Ekkert hagkerfi stendur undir slíkum vöxtum, lausn kapítalismans eru stríð og eyðilegging að ógleymdum gjaldþrotum, sem alþýðan er undantekningalaust er látin axla. Án afláts er verið að sameina og splitta fyrirtækum, þau fara á hausinn og rísa upp aftur með sömu eigendum jafnvel á sama stað eða ef til vill annars staðar.
Lífsskilyrði iðnstétta birtist nú í Kárahnjúkum. Ófaglærðir iðnaðarmenn með fölsk sveinsbréf og bílpróf frá láglaunaríkjum eru teknir fram fyrir íslenska iðnarmenn. Dapurlegt er að landið sem margir þessara manna koma frá er stjórnað af svokölluðum Kommúnistaflokki Kína, sem sennilega er stærsti fasistaflokkur sögunnar og sá alræmdasti. Þrælahald barna viðgengst, ótrúlegur vinnutími, ekkert frí og óskiljanlega lág laun. Margar þekktar vörur sem þið þekkið, ljósaperur, fatnaður, leikföng, raftæki og fleira, eru framleiddar af kínverskum þrælum í nafni kommúnismans.
Eins og sést á þetta ekkert skylt við kommúnisma, “öllum helgum dómum er spilt” . Dæmi: náttúra Íslands. Er ekki kominn tími til “að hvessa algáð augu á lífsstöðu sína alla og samskipti.”
Það er til umhugsunar að kapítalisminn hefur kostað tvær heimstyrjaldir, tvær kjarnorkusprengingar, samfellt stríð Bandaríkjanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar, Kórea, Víetnam, Chíle, Grenada, Afganistan, Júgóslavía, Írak og mörg fleiri,  “öll verandi gengur fyrir ætternisstapa”.
Rúnar Sveinbjörnsson