Fara í efni

Verður tyggigúmmíkenningin sannspá?

Þögn flestra þingmanna Framsóknarflokksins í ,,fjölmiðlafrumvarpinu", frumvarpi sem þeir vilja að keyrt sé í gegn um þingið, er æpandi. Það virðist varla nokkur þingmaður fyrir utan Kristin H. Gunnarsson tala opinberlega um málið. Í fjölmiðlum má hins vegar oft lesa fréttir þar sem ónafngreindur þingmaður úr liði Framsóknarmanna lætur hafa eftir sér að mikil óánægja sé með málið innan flokksins eða óánægja með framgöngu forsætisráðherra. En hvers vegna þorir enginn að koma fram undir nafni?

Líklegast má telja að þingmönnum flokksins finnist skynsamlegt að segja sem minnst um málið einfaldlega vegna þess hversu vitlaust frumvarp forsætisráðherra er og málatilbúningur hans. Sókn Halldórs Ásgrímssonar í forsætisráðherrastólinn ræður því að flokksforystan lætur vitleysuna yfir sig ganga og eru engin hugmyndafræðileg akkeri sem stoppa flokkinn í að styðja tillögur Davíðs. Síðan nota þingmenn Framsóknar fjölmiðla og sem ónafngreindir heimildarmenn gera þeir sér upp mikla óánægju. Forystan veit að hinn almenni flokksmaður er óánægður með frumvarpið og ekki hjálpar til að Kristinn H. Gunnarsson vinnur duglega í að ýta undir þá óánægju. Það er því klassísk framsóknartaktík að barma sér yfir ofríki íhaldsins til að fá einhverja samúð meðal almennings og reyna að kaupa sig frá málum.

Nýjasta útspil stjórnarherranna, Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar, er síðan nýr kapítuli í þessu sjónarspili. Táknrænar breytingar eru gerðar á frumvarpinu og þannig reynt að bjarga ásjónu Framsóknarflokksins. Nú geta þingmenn flokksins látið sem svo að hlustað hafi verið á óánægjuraddir og því séu þeir að bera sigur úr býtum. En nú mætti spyrja hvers vegna Framsókn slítur ekki samstarfinu í stað þess að setja þetta sjónarspil af stað? Til að svara þeirri spurningu er nauðsynlegt að leggjast í gamaldags eðlisfræði og ágæt finnst mér sú kennig sem sett hefur verið fram hér á síðunni  að eðli Framsóknarlokksins sé í ætt við vel tuggða tyggjóplötu sem lendir á gangstétt og þaðan á skósóla; læsi sig því fastar undir sólann sem lengur er á henni gengið. Nú sé svo komið að hún verði ekki losuð nema með sérstökum áhöldum. Slíkum tólum búi Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar  ekki yfir og geti því ekki losnað úr stjórnsamstarfinu við Framsókn þótt hann feginn vildi. Við skulum sjá hvort að tyggigúmmíkenningin reynist ekki hárrétt!

Það kynni vissulega að vera rökrétt samkvæmt keninngum eðlisfræðinnar en fyrir þjóðina er það hins vegar ömurleg tilhugsun að örlög hennar ráðist af einum stól sem Halldór Ásgrímsson langi til að setjast í.
Huginn Freyr Þorsteinsson