Fara í efni

Þreyta á glamúr og kóngadekri

Hjartanlega er ég sammála þér í skrifum þínum hér á síðunni (14/5) um að vera kominn með uppí háls af öllu þessu yfirstéttar- og kóngadekri, sem mér sýnist heldur vera að færast að nýju í aukana. Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, finnst himinn og jörð vera að farast ef forseti Íslands fer ekki í brúðkaup sonar dönsku drottningarinnar og Halldór Ásgrímsson talar um skyldur hans gagnvart íslensku þjóðinni í því sambandi! Á hvaða öld telja þessir menn sig vera uppi? Ég er sammála þér, að á grundvelli fjölskyldulífs kóngafólks á ekki að byggja samskipti þjóða. Kónga- og yfirstéttardekur á að heyra fortíðinni til. Annars býður mér í grun að þeir Davíð og Halldór séu fyrst og fremst að reyna að skaprauna Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta og þykir mér það heldur lágkúrulegt. Ég verð þó jafnframt að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum hve langt Ólafur Ragnar gengur í þessu glamúrlífi og er mér ekki að skapi að hann samflétti slíkar áherslur embætti forseta Íslands. Hafi hann áhuga á glamúrfólki á hann að sinna slíkum áhugamálum á eigin kostnað og í sínum frítíma eins og þú segir réttilega.

Kveðja,

Sunna Sara