Fara í efni

Rumsfeld hlær að pyntingum

Sæll Ögmundur.
Ég á engin orð lengur yfir framkomu bandarískra stjórnvalda í tengslum við pyntingar og morð hernámsliðsins í fangelsum í Írak. Bandarískir ráðamenn hamra á því að þeir hafi verið að frelsa Íraka undan ofurvaldi kúgara. Undir þessu yfirskini fara þeir sjálfir myrðandi um Írak og hafa nú í ofanálag orðið uppvísir að grófari mannréttindabrotum en flestir hefðu getað ímyndað sér. Meðferð þeirra á varnarlausu fólki, sem þeir hafa algerlega á sínu valdi undir byssukjöftum í fangelsum Íraks er í einu orði sagt, viðbjóðsleg. Fólkið pynta þeir, svívirða og niðurlægja á skipulegan hátt. Á síðustu dögum hafa borist fréttir frá öðrum löndum, Afganistan að ógleymdu fangelsinu í Guantanamo herstöðinni þar sem "grunuðum hryðjuverkamönnum" er haldið utan lögsögu dómstóla árum saman.
Það sem veldur því að ég skrifa þér þessar línur, Ögmundur, er viðtal eða öllu heldur hláturskast, Donalds Rumsfelds, "varnarmálaráðherra" Bandaríkjanna, sem sýnt var í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Rumsfeld var kominn til Íraks til að stappa stáli í pyntingameistarana. Gott ef  hann var ekki í fangelsinu þar sem upplýst hefur verið um hryllilegustu pyntingarnar. Og hvað fannst varnarmálaráðherra Bandaríkjanna um það sem fram hefur komið í fjölmiðlum um pyntingarnar? "Ég er hættur að lesa blöðin", sagði Rumsfeld og tók síðna bakföll af hlátri.
Aftan í þennan mann hafa forsvarmenn íslensku þjóðarinnar hengt okkur. Það er ekki góð tilhugsun.
Með kveðju,
Sunna Sara