Fara í efni

Furðufálki í fjármálaráðuneyti?

Í Kastljósþætti í gærkvöldi var rætt við fjármálaráðherra um kaup Símans á SkjáEinum. Í því sambandi er ærin ástæða til að spyrja hvar fjármálaráðherra hafi haldið sig undanfarna mánuði. Ekki verður þó farið nánar út í þá sálma að sinni. Undir lok þáttarins spurði Kristján, annar þáttarstjórnanda hvort ekki drægi að því að stimpilgjöld yrðu afnumin. Geir H. Haarde taldi að það kæmi til greina, en þetta væri hugsanlega ekki jafn mikilvægt fyrir almenning eins og menn héldu, þar eð almennt greiddu menn ekki stimpilgjöld nema einu sinni til tvisvar á ævinni, þegar þeir keyptu sér íbúð!

Í hvaða landi býr fjármálaráðherra ? Hann tilheyrir að sjálfsögðu elítunni og greinilegt að langt er síðan hann hefur staðið í að slá sér lán. En hvað láta landsmenn þessa "fálka" lengi bulla um hlutina og í þessu sambandi sjálfan fjármálaráðherrann.

Fjármálaráðherra sem ekki gerir sér grein fyrir að greiða þarf stimpilgjöld af hverju einasta láni sem almenningur tekur, líka lánunum sem skuldbreytt er til að nýta sér "kostaboð" bankanna nú um stundir, á ekkert betra skilið en verða stoppaður upp, eins og hver annar furðufálki.
Ísmann