UM HLUTSKIPTI KÚRDA Á FUNDI MÁLFRELSISFÉLAGSINS

kurdaf.jpg

Síðastliðinn laugardag flutti ég erindi á vegum Málfrelsisfélagsins sem fram fór í salarkynnum Þjóðminjasafnisins við Suðurgötu í Reykjavík. Yfirskrift fundarins var: Í þágu upplýstrar umræðu. Gerði ég grein fyrir þessum fundi og fyrirlesurum hér á heimasíðunni.

Mitt erindi var eitt þriggja og fjallaði ég um þá þöggun sem ríkt hefur um hlutskipti Kúrda og það ofbeldi sem þeir hafa mátt sæta frammi fyrir heimi sem hvorki vill heyra né sjá.
Erindin má öll nálgast á hreimasíðu Málfrelsisfélagsins, krossgotur.is.
En hér að neðan má einnig lesa samantekt mína auk þess sem youtube hlekkur er á erindið. 

Í þágu upplýstrar umræðu: Samantekt um hlutskipti Kúrda.

Í erindi mínu beini ég sjónum að hlutskipti Kúrda í seinni tíð og hvernig ofbeldi sem þeir hafa sætt  hafi verið þaggað af hálfu ráðandi afla og fyrir bragðið aldrei náð eyrum almennings.
Um aldir var víðfeðmu veldi Ottómana stýrt frá Tyrklandi en innan ríkis þeirra voru ótal þjóðir og þjóðarbrot, þar á meðal Kúrdar.
Núverandi ríkjaskipan í vestanverðri Asíu og fyrir botni Miðjarðarhafs var ekki komið á fyrr en á millistríðsárunum. Þegar á þeim tíma sem heimsstyrjöldin fyrri geisaði voru fulltrúar gömlu nýlenduveldanna, Bretlands og Frakklands, sestir yfir landakortið tilbúnir að skipta hinu fallandi tyrkneska riki með fyrirsjáanlegum sigurvegurum.
Samningamennirnir, þeir Sykes og Picot, komust að þeirri niðurstöðu að Kúrdar skyldu fá sitt ríki og var það fastmælum bundið á ráðstefnu í Sevres í Frakklandi árið 1920.
En við svo búið risu tyrkneskir þjóðernissinnar upp og fengu þessum áformum hnekkt og var nú aftur teiknað landakort með nýskipan ríkja. Öll fyrirheit gefin Kúrdum voru nú gleymd og tröllum gefin og á ráðstefnu í Lausanne í Sviss á árunum 1922-23 varð til núverandi landakort. Það er nú ekki eldra en þetta. Engu að síður er oft látið í veðri vaka að svona hafi ríkjaskipan verið frá ómunatíð!
Umhugsunarefni er að Kúrdar sem jafnan er lýst sem minnihlutaþjóðarbroti í fjórum ríkjum, Tyrklandi, Írak, Íran og Sýrlandi, væru fimmtíu milljón manna þjóð í sameinuðu Kúrdistan ef þeim hefði verið heimilað að stofna eigið ríki á því landsvæði þar sem þeir eru í meirihluta. Það land væri fjórum sinnum stærra en Ísland.
Í erindi mínu rek ég atburðarás síðustu áratuga og fer hratt yfir. Ég staðnæmist hins vegar við niðurstöður, Permanent Peoples´ Tribunal í París, sjálfstæðs mannréttindadómsóls sem skipaður er færustu lögfræðingum og mörgum fremstu mannréttindafrömuðum heimsins en um ógnaröldina í tyrkneska Kúrdistan fjallaði þessi dómstóll í marsmánuði 2018. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að framdir hefðu verið stríðsglæpir og hrikaleg mannréttindabrot á Kúrdum í Tyrklandi á árunum 2015-2017. Ég var viðstaddur vitnaleiðslurnar í París og birti ég samhliða frásögn minni myndir sem sýndar voru við yfirheyrslurnar í París. Ég var einnig viðstaddur nokkru síðar þegar dómendur kynntu úrskurð sinn í salarkynnum Evrópusambandsins í Brussel. Allt var þetta áhrifamikið og hrollvekjandi. Ekki síst þögnin sem hafði umlukt þessa atburði.
Ég varpaði fram þeirri spurningu undir lok fundar Málfrelsisfélagsins hverju það gæti sætt að tilraunir Kúrda til að koma á friði fengju nánast aldrei að heyrast í fjölmiðlum heimsins og visaði ég sérstaklega í orð Abdullah Öclans, helsta leiðtoga Kúrda í Tyrklandi, Sýrlandi og víðar. Hann hefur setið í einangrunarfangelsi á Imrali eyju í Marmarahafinu skammt frá Istanbúl allar götur frá því í ársbyrjun 1999, í 24 ár. Þrátt fyrir nær algera einngrun barst frá honum orðsending vorið 2019 sem ég geri grein fyrir. Um friðartillögur Öcalans hefur heimurinn þagað. Þegar helstu fjölmiðlar og fréttaveitur heimsins þegja þá verður þögn.
Þessa þögn verður að rjúfa í þágu mannréttinda og upplýstrar umræðu.
Hér er youtubehlekkurinn: https://krossgotur.is/i-thagu-upplystrar-umraedu-samantekt-um-hlutskipti-kurda/  

  

Fréttabréf