NÝ ÚTGÁFA AF VITRINGUNUM ÞREMUR

Trump - Palin - Bolton

Nýlega sagði ég  frá samræðu um borð í flugvél á leið frá Búkarest til Chisinau, um bandarísku forsetakosningarnar, sem þá voru framundan. Það var Bandaríkjamaður sem ég ræddi við og fann hann Hillary Clinton flest til foráttu. Reyndar einnig Donald Trump sem hann sagðist líta á sem aula og að hann yrði áhrifalaus. Innra með mér gat ég tekið undir margt í máli hans. http://ogmundur.is/annad/nr/7971/ 

En eftir því sem ég tala við fleiri Bandaríkjamenn sem þekkja vel til stjórnmála vestanhafs sannfærist ég um að þetta er alrangt mat.

Þótt hvorki Trump né Clinton hafi verið mér að skapi er þar engu að síður ekki saman að jafna. Því fer víðáttufjarri.
http://ogmundur.is/umheimur/nr/7975/  

Og þá ekki fyrst og fremst hvað þau sjálf varðar, heldur alla hina sem þau velja til ráðuneytis og skipa til áhrifa í stjórnkerfi Bandaríkjanna. Völd Bandaríkjaforseta liggja ekki síst í fólkinu sem þeir skipa í áhrifastöður.

Því heyrist nú fleygt að erki afturhaldsamaðurinn John Bolton kunni að verða næsti sendiherra BNA hjá Sameinuðu þjóðunum! Og að Sarah Palin, ein helsta talskona "Teboðshreyfingarinnar",  verði ráðherra. Fyrir mitt leyti þarf ég ekki lengri upptalningu til að kalt vatn renni milli skinns og hörunds. 

Bandarískt samfélag býður upp á margt það besta sem er að finna á byggðu bóli í vísindum og listum og einnig í uppbyggilegri stjórnmálahugsun. En líka það versta. Það síðara verður á matseðlinum í Washington næstu fjögur árin.  

Það versta er, að áhrifanna mun gæta um heiminn allan þegar "Nýi heimurinn", eins og Ameríka einhvern tímann hét, heldur inn í miðaldamyrkrið í leiðsögn þeirra Boltons, Söruh og Donalds, spánýrri útgáfu af virtringunum þremur. 
Eða þannig.

Fréttabréf