Björn Jónasson skrifar: HEIM MEÐ LÍFEYRIS-EIGNIRNAR
Níutíuogátta prósent tekna íslensku lífeyrissjóðanna koma úr
íslensku efnahagslífi. Því sterkara sem íslenskt atvinnulíf er, því
sterkari eru sjóðirnir. Þess vegna er ekki skynsamlegt að fara með
fjármuni úr landi, heldur borgar sig fyrir sjóðina að byggja upp
Ísland. Sjóðirnir tapa á atvinnuleysi á Íslandi. Sjóðirnir tapa ef
efnahagslíf Íslands er veikt. Það gagnar ekki að fjárfesta í
uppbyggingu í öðrum löndum. Það er ekki áhættudreifing. Það er bara
óskynsamlegt. Það á ekki að vera erfitt að sjá þetta samhengi.
Lífeyrissjóðirnir eru ekki vogunarsjóðir. Þeir eru ekki geymsla.
Það er ekki óhugsandi að nota lífeyrissjóðina sem efnahagslegt
stjórntæki. Flytja peninga úr landi, þegar ofhitnar og tilbaka
þegar kreppir að. En þá er líka nauðsynlegt að breyta kerfinu,
þannig að það verði einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn og
hann lúti lýðræðislegri stjórn, t.d. kosinni af Alþingi.
Björn Jónasson