DRÁPSKLYFJAR Í BOÐI ALÞJÓÐABANKANS
Nú er komið í ljós að AGS mótar stefnu uppúr kennslubókum en
hvorki lífsreynslu né heilbrigðri skynsemi. Verðbólga er nú lítil
sem engin á Íslandi, sé horft fram á við. Enginn rekstur skilar
arði. Fjöldi fyrirtækja leggur upp laupana á degi hverjum. Samt
vilja þessir ofvitar í AGS halda vöxtum háum! Það er augljóst mál
að peningar sem eru lagðir inn í banka á 15% vöxtum eru
niðurgreiddir af skattgreiðendum. Það er ekki hægt að ávaxta
peninga um 15-20% í atvinnurekstri á Íslandi í dag. Hvernig geta
bankar þá lofað slíkri ávöxtun á innlán?
Alls staðar í kringum okkur, í Bretlandi, Bandaríkjunum, í löndum
Efnahagsbandalagsins, eru vextir að nálgast núllið. Það er gert til
að minnka greiðslubyrði heimilanna, til að hjálpa til að koma
húsnæðismarkaði í gang, til að minnka greiðslubyrði banka á innra
markaði og til að gera fyrirtækjum kleift að taka lán, sem þau
standa undir.
Nú er svo komið að bankar lána ekkert. Því eru háir vextir ekki að
stýra ákvörðunum til framtíðar. Þeir snúa því aðallega að því að
refsa þeim sem tóku lán í fortíðinni.
Allir sem vit hafa á, hagfræðingar, atvinnuveitendur,
húsnæðiseigendur, fasteignasalar, sparifjáreigendur, hagsýnar
húsmæður og fólk sem enn hefur heilbrigða skynsemi, er á einu máli
um að háir vextir á Íslandi í dag er svo galin stefna að engum nema
skólakrakkarnir sem vinna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefðu getað
fundið hana upp.
Ef ríkissjórnin ætlar að verja þessa stefnu, þarf eitthvað
haldbærara en að vísa í krakkana hjá AGS. Ef ríkisstjórnin telur
þetta vera rétta stefnu þá þarf að færa rök fyrir því. Ef ekki þá á
ekki að fylgja henni.
Hreinn Kárason