Vandi Byrgisins
Blessaður Ögmundur. Þú eins og aðrir landsmenn hefur eflaust
lesið allar yfirlýsingar stjórnvalda, nú síðast Páls Péturssonar,
um hvernig tryggja eigi starfsemina og ljúka því óvissu ástandi sem
verið hefur í húsnæðismálum Byrgisins í Rockville. Það eru núna 80
manns í Rockville og okkur vantar pláss fyrir 20-30 strax. Ekki
hefur komið króna frá ríkisvaldinu eftir áramót, gætir þú séð
þessari fjölskyldu farborða?
Kveðja Jón Arnarr
Heill og sæll Jón Arnarr.Það er nokkuð um liðið síðan þú sendir mér
þessa fyrirspurn og hefur mér nú borist annað bréf frá þér
síðan þar sem þú bendir á að vegna doða og áhugaleysis stjórnvalda
hafi Guðmundur forstöðumaður Byrgisins lýst því yfir að vegna
fjársveltis þyrfti hann að útskrifa fjölda manns hvort sem
honum líkaði betur eða verr. Þú minnir réttilega á að ábyrgðin sé
okkar allra að leggja lóð á vogarskálarnar til að leysa vandann
enda skorti ekki á velviljann í orði: "Ég minnist orða þinna og
fleiri þingmanna og ráðherra bæði á þingi og í blöðum og í útvarpi.
Þau voru öll á einn veg að bregðast skyldi fljótt við vanda
Byrgisins.Nú er svo komið að janúarmánuði er að ljúka og ekki hefur
heyrst hósti né stuna frá ríkisstjórn þessa lands né öðrum
ráðamönnum. Endalaust er vísað til nefndar sem fjalli um málið og
hún þvælir málinu út og suður um allar sveitir. Byrgið hefur enn
ekki fengið eina krónu af fjárlögum ársins 2003 og í fréttum í dag
á útvarpi Sögu lýsti Guðmundur forstöðumaður yfir að vegna
fjársveltis þyrfti hann að útskrifa 20 manns úr meðferð, hvort sem
honum líkaði það betur eða verr. Er þetta forsvaranlegt hjá einni
ríkustu þjóð heims?"
Nei, þetta er ekki forsvaranlegt Jón Arnarr. Mér fannst
stórtkostlegt að fá að koma á ykkar fund fyrir jólin og það sem ég
hef heyrt af ykkar starfi er allt á einn veg og mjög lofsamlegt.
Það er ekki á færi nema mikilla hugsjónamanna eins og ykkar að koma
því í framkvæmd sem þið hafið gert en ekki er hægt að ætlast til
þess af ykkur að þið gerið það ómögulega að framfleyta hinni "stóru
fjölskyldu" án nokkurs stuðnings frá því samfélagi sem þið eruð að
þjóna þegar allt kemur til alls. Þar með hef ég svarað spurningunni
en hins vegar hef ég ekki gert mitt til að rísa undir þeirri ábyrgð
sem þú réttilega segir að hvíli á herðum okkar þingmanna. Úr því
mun ég reyna að bæta. Hér með sendi ég þér -"liðsforingjanum" - og
öllum í liðinu baráttukveðjur.
Ögmundur