ÍSLANDI TIL SÓMA!


Aldrei hefur mér þótt eins vænt um málflutning af Íslands hálfu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og þann sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, flutti nú í vikulokin.  Þeir sem segja að litlu máli skipti hverjir fara með stjórn á Íslandi ættu að lesa ræðu hans (sjá slóð að  neðan).  Ég leyfi mér að fullyrða að slík ræða hafi aldrei verið flutt áður á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna af íslenskum ráðherra.
Hér var talað tæpitungulaust og óttalaust um réttlætismál án þess að fá áður stimpil að utan, það mátti sjá úr mílufjarlægð - svo mikið þykist ég vita um utanríkismál. Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði erum við flest ósammála utanríkisráðherra um ESB en mannréttindakafla þessarar ræðu hefðum við getað flutt kinnroðalaust. Svo mikið veit ég. Össur tók upp mál íslensku sjálfboðaliðanna sem Ísraelar komu í veg fyrir að kæmust með gervifætur til að setja á íbúa á Gaza, sem hafa misst útlimi vegna hernaðar Ísraela. Hann sagði Ísraelum umbúðalaust til syndanna, og að framferði af þessu tagi væri óverjandi og ómanneskjulegt ranglæti sem væri þeim til skammar.
Össur Skarphéðinsson tók líka upp mál sem hefur verið mér sem ráðherra mannréttindamála mjög hugleikið, en það er mál írönsku konunnar, Ashtiani, sem stjórnvöld þar í landi ætla að grýta til dauða. Það mál hefur verið mikið til umræðu í fjölmiðlum heimsins, og verið til umfjöllunar hjá Amnesty hér á landi og annars staðar. Framtaksamir mannréttindasinnar hér á landi hafa einmitt sett í gang undirskriftalista til stuðnings Ashtiani, og ég hvet alla til að skrifa nafn sitt til stuðnings henni.
Ég var starfandi formaður utanríkismálanefndar þegar Ísraelsmenn réðust á hjálparskipin sem voru á leið með neyðaraðstoð til Gaza. Meirihluti nefndarinnar samþykkti þá harkaleg mótmæli, og beindi eindregnum tilmælum til Össurar að fara sem utanríkisráðherra Íslands til Gaza til að sýna íbúum þar stuðning Íslendinga. Að því er ég best veit hafa Ísraelar ekki hleypt honum, fremur en ráðherrum annarra ríkja inn á Gaza ennþá, og eru sennilega ekki líklegir til þess eftir ræðuna hjá SÞ. Það á eftir að koma í ljós. Þá er að reyna aðrar leiðir.
Össur tók líka upp mannréttindi samkynhneigðra, sem líklega er ekki oft til umfjöllunar á Allsherjarþinginu. Ég hef ekki oft heyrt áskoranir þaðan til þjóða heimsins um að afnema með öllu misrétti vegna kynhneigðar fólks.
Enn er það eitt sem mér þótti vænt um í ræðu Össurar. Það var umfjöllun hans um vatn og mannréttindi. Ég gagnrýndi það hér á síðunni í sumar, þegar mér fannst sérkennilegt að íslenska fastanefndin sat hjá, þegar til umfjöllunar var tillaga um að skilgreina aðgang að hreinu vatni sem mannréttindi. Ég sagði af því tilefni að hjáseta Íslands hlyti að hafa verið slys. Á Allsherjarþinginu tók utanríkisráðherrann af öll tvímæli um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar. Í hrárri þýðingu minni sagði hann að það væri "staðföst afstaða ríkisstjórnarinnar að réttinn til öruggs drykkjarvatns og lágmarkshreinlætis ber að viðurkenna sem mannréttindi, sem er undirstaða lífsgæða og allra annarra mannréttinda."

Svona á Ísland að tala á alþjóðavettvangi. Segja hlutina hreint út og taka afstöðu. Slíkur málflutningur er Íslandi til sóma.


Ræða Össurar: http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/5955

Fréttabréf