BETLEHEM FYRR OG NÚ

Í Betlehem er barn oss fætt, er sungið um jólin þegar fólk minnist fæðingar Krists. Okkur er innrætt að jólin eigi að vera tilefni til göfugrar hugsunar. Prestarnir predika um mannkærleikann og boðskapur réttlætis og friðar er í hávegum hafður. Allt of mörgum þykir það hins vegar vera þægilegra að hugsa um tvö þúsund ára réttlæti eða ranglæti, eftir atvikum, en veruleika samtímans sem kallar á afstöðu okkar hér og nú.
Í dag heyrðum við í fréttum Svein Rúnar Hauksson, lækni og formann félagsins Ísland-Palestína, tala frá Betlehem. Hann hafði komist til borgarinnar í fylgd biskups frá Jerúsalem, að því er mér skildist (eða var það biskupinn af Kantaraborg sem einnig var í Jerúsalem í dag?). Borgin er nánast eins og lokað fangelsi, umlukt múrum og umsetin ísraelsku hernámsliði. Þetta ætti að vera umfjöllunarefni úr hverjum predikunarstól á jólum meðan þetta kúgunarástand varir. Orð Sveins Rúnars voru predikun mín þessi jól.

Á heimasíðu félagsins Ísland-Palestína segir eftirfarandi: " Á hátíð ljóss og friðar er rétt að minna á baráttu íbúa Landsins helga fyrir mannréttindum sínum og frelsi. Íbúar Bethlehem hafa sent heimsbyggðinni hjálparbeiðni með átakinu "Open Bethlehem" til að vekja athygli á innilokun borgarinnar af völdum hernámsins og byggingu Aðskilnaðarmúrsins. Múrinn aðskilur og umkringir fjölmargar byggðir og bújarðir í hertekinni Palestínu. Hann rís á herteknu palestínsku landi, víða langt frá landamærunum að Ísrael. Áframhaldandi bygging hans, þvert á alþjóðalög og úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag, heldur áfram að valda hörmungum í og við Bethlehem, sem og annars staðar í Palestínu."

Fréttabréf